Innlent

Segir að fjölskylduvænt samfélag kosti en dýrt að fæðingum fækki

Stefán Árni Pálsson skrifar
Eygló Harðardóttir skipar starfshóp um framtíðarskipan fæðingarorlofs.
Eygló Harðardóttir skipar starfshóp um framtíðarskipan fæðingarorlofs. visir/vilhelm/getty
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið að skipa starfshóp um framtíðarskipan fæðingarorlofs en þetta kemur fram í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu.

Eitt af umfjöllunarefnum hópsins verður hvort mikilvægara sé að lengja fæðingarorlofið eða hækka hámarksgreiðslur til foreldra þannig að markmiðum laga verði best náð.

Fram kemur í tilkynningunni að markmið laga um fæðingar- og foreldraorlof sé að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína og auðvelda jafnframt barnafólki að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

„Árið 2000 var ákveðið með lögum að veita feðrum sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs til jafns við mæður. Fæðingarorlofsréttur foreldra er þrískiptur þar sem foreldrar eiga hvort um sig sjálfstæðan rétt til þriggja mánaða orlofs sem þau geta ekki framselt en þrír mánuðir eru sameiginlegir. Eftir að karlar fengu sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs fjölgaði þeim ár frá ári sem nýttu sér hann þar til orlofstaka þeirra náði hámarki árið 2007 og var að meðaltali 102 dagar,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Dregið hefur úr þátttöku karla í fæðingarorlofi 

Í kjölfar efnahagshrunsins hafi hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi verið lækkaðar. Nú nemi hámarksgreiðslan 370.000 kr. á mánuði og skal aldrei vera hærri en nemur 80% af heildarlaunum. Taka mæðra á fæðingarorlofi hefur lítið breyst á liðnum árum en verulega hefur dregið úr þátttöku karla í fæðingarorlofi sem árið 2013 nam að meðaltali um 74 dögum.

Eygló Harðardóttir segir mikilvægt að taka ákvörðun um framtíðarskipan fæðingarorlofsmála. Fæðingarorlof á Íslandi sé styttra en annars staðar á Norðurlöndunum og jafnframt sé hér lengsta bilið sem foreldrar þurfa að brúa frá þeim tíma sem fæðingarorlofi lýkur þar til leikskólaganga hefst.

Forsenda breytinga sé hins vegar að sem mest sátt og samstaða sé um leiðir til að ná sem best markmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof.

„Mikilvæg forsenda breytinga á fæðingarorlofinu á sínum tíma var aðkoma aðila vinnumarkaðarins og sátt þeirra um leiðir. Þessi sátt virðist ekki fyrir hendi núna. Þar sem ýmist heyrist að lækka þurfi tryggingagjaldið sem takmarkar svigrúm til breytinga, eða að lengja beri fæðingarorlofið eða að hækka greiðslur áður en orlofið er lengt,“ segir Eygló.

Hún segir einnig að fjölskylduvænt samfélag kosti en það sé líka dýrt að fæðingum fækki og þjóðin eldist hraðar.

„Það kostar líka að bakslag komi í jafnréttisbaráttuna og foreldrar séu tilneyddir að velja á milli vinnumarkaðarins og barneigna. Því mun ég á næstu dögum óska eftir tilnefningum frá aðilum vinnumarkaðarins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga í formlegan starfshóp um framtíðarskipan fæðingarorlofs hér á landi. Aðeins saman getum við búið íslenskum fjölskyldum besta mögulega umhverfi og mótað framtíðarskipan fæðingarorlofs hér á landi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×