Innlent

Ráðherra hefur ekki tekið formlega ákvörðun um flutning Fiskistofu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur svarað spurningum umboðsmanns alþingis.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur svarað spurningum umboðsmanns alþingis. Vísir
Ekki er búið að ákveða að Fiskistofa verði flutt á Akureyri heldur hafa áform um slíkt verið kynnt. Þetta segir í svarbréfi atvinnuvegaráðuneytisins til umboðsmanns alþingis um málið.

Þar kemur fram að óvíst sé að sérstaka lagaheimild þurfi til að flytja höfuðstöðvarnar norður þar sem þær eru í Hafnarfirði en ekki Reykjavík. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur engu að síður ákveðið að taka af allan vafa og beita sér fyrir ótvíræðri lagaheimild áður en ákvörðunin verður tekin.

Um greiðslur sem starfsmönnum Fiskistofu mun standa til boða ákveði þeir að fylgja stofnuninni norður segir ráðherra að slíkt hafi áður verið gert. „Það hefur áður tíðkast að semja við starfsmenn um tilteknar greiðslur við flutning stofnana út á land, t.d. við flutning Matvælastofnunar (þeirra stofnana sem urðu að Landbúnaðarstofnun og síðar Matvælastofnun) til Selfoss, Byggðastofnunar til Sauðárkróks og Landmælinga Íslands til Akraness,“ að því er segir í svarinu.

Umboðsmaður sendi ráðuneytinu bréf vegna flutningsins og vildi fá svör við því á grundvelli hvaða lagaheimilda ákvörðunin væri tekin. Umboðsmaður sendi bréfið í kjölfar beiðni starfsmanna Fiskistofu sem leituðu til hans og kvörtuðu yfir flutningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×