Innlent

Íhuga að gera NASA að tónleikastað á ný

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Nýir eigendur NASA hafa sett áform um hótelbyggingu á bið og íhuga að endurreisa þar tónleikastað. Eigendurnir tóku við NASA í fyrradag. Þeir eru nú að meta hvað þeir ætla að gera við húsið en þeir hafa meðal annars rætt málið við borgarstjóra.

„Stóru fréttirnar eru kannski þær að það er kominn nýr eigandi sem ætlar að gefa sér tíma til þess að skoða alla möguleika í stöðunni. Er með það til skoðunar að endurvekja NASA sem tónleikastað og ætlar að setja áform um hótelbyggingu til hliðar þangað til að ja allt liggur fyrir,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Nýr eigandi hússins er Ólafur Björnsson. Óvíst er hvenær ákvörðun liggur fyrir um hvað gert verður við húsið. Ljóst er að ráðast þarf í verulegar endurbætur á NASA salnum. Salurinn var friðlýstur íbyrjun mánaðarins og má því ekki breyta upprunalegum innréttingum. Dagur segir það jákvæðar fréttir að svo geti farið að þar taki tónlist að óma á ný.

„Það sem borgaryfirvöldum finnst skipta mestu er að þessum húsum sem hérna standa, sem mörg eru gömul og geta verið mikil borgarprýði, að þeim verði gert til góða og að starfsemin hér innan veggja smiti lífi út á Austurvöll því að það eru svona lífsgæði fólgin í því“, segir Dagur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×