Innlent

Nýtt útspil í læknadeilunni

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Forystumenn ríkisstjórnarinnar funduðu með formanni samninganefndar ríkisins í læknadeilunni og sáttasemjara í dag. Samninganefndin metur nú næstu skref eftir að læknar komu með nýtt útspil á fundi í Karphúsinu í gær. Einhver þíða virðist komin á milli deiluaðila en ríkissáttasemjari hefur boðað bæði almenna lækna og skurðlækna á fund á morgun.

Ráðherranefnd um efnahagsmál kom saman til fundar í forsætisráðuneytinu í dag. Í nefndinni sitja Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Aðrir ráðherrar sitja fundinn eftir því hvert umræðuefni er en í dag mætti Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, á fundinn en umræðuefnið var læknadeilan. Hann vildi lítið tjá sig um fundinn en sagðist vonast til að deilan leysist fyrir jól.

Ráðherranefndin er stefnumótandi og í forystu varðandi samskipti við aðila vinnumarkaðarins. Á fund nefndarinnar í dag mættu Magnús Pétursson ríkissáttasemjari og Gunnar Björnsson formaður samninganefndar ríksins.

Svo virðist sem einhver hreyfing sé komin á málið. Samninganefndir ríksins og Læknafélagsins funduðu í Karphúsinu í gær eftir vikulangt hlé og ætla að hittast aftur í fyrramálið. Þá funduðu skurðlæknar í Karphúsinu í dag og ætla að funda aftur klukkan þrjú á morgun.

Samkvæmt heimildum fréttastofu lagði samninganefnd Læknafélagsins í gær fram einhverskonar útspil sem samninganefnd ríksins er þessa stundina að meta. Gera má ráð fyrir að þær hugmyndir hafi verið ræddar á fundi ráðherranefndarinnar í dag.

Samkvæmt heimildum fréttastofu felst í þeim að gerður verður styttri kjarasamningur en áður hefur verið rætt um og svo einhverskonar útfærsla á því hvernig launahækkanir verða færðar inn í launatöflur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×