Yngsti nemandinn sem hefur brautskráðst sem stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi útskrifaðist í dag aðeins sautján ára gamall en það er Árný Oddbjörg Oddsdóttir á Selfossi.
Hún lauk náminu á þremur og hálfu ári en Árný Oddbjörg útskrifaðist af tveimur brautum, náttúrufræðibraut og hestabraut. Hún sleppti 10. bekknum og fór strax í Fjölbrautaskólanámið eftir 9. bekkinn.
„Mér gekk mjög vel og ég er ánægð með einkunnirnar og námið í skólanum, þetta var virkilega gaman og skemmtilegt að geta drifið þetta af, ég nenni engu drolli þegar ég tek mér verkefni fyrir hendur“, sagði Árný Oddbjörg.
Hún hefur ráðið sig í vinnu til Arnars Bjarka Sigurðssonar, tamningamanns á Sunnuhvoli í Ölfusi, þar sem hún mun aðstoða hann við hestamennskuna eftir áramót. Í haust stefnir hún á nám í hestamennsku á Hólum í Hjaltadal.
Dúx skólans var Rökkvi Hljómur Kristjánsson en hann býr á bænum Hólum á Rangárvöllum. Hann hélt ræðu við útskriftina en sagðist ekki hafa langan tíma því hann þyrfti að drífa sig heima að hleypa til en á Hólum er rekið myndarlegt fjárbú.

