Innlent

Vill ekki verða síðastur frá borði

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Kjartan B. Örvar meltingarlæknir á Landspítalanum sagði starfi sínu lausu í gær. Hann segir að sér sé full alvara. Hann ætli ekki að verða síðasti maðurinn til að yfirgefa hið sökkvandi skip. Samningafundi í læknadeilunni lauk nú síðdegis án árangurs.

Jón Örvar Kristinsson meltingarlæknir sagði upp starfi sínu fyrir helgi og birti uppsagnarbréf sitt á Facebook. Meltingarsérfræðingarnir Kjartan B. Örvar og Óttar Már Bergmann fylgdu í fótspor hans og sögðu störfum sínum lausum í gær.

Kjartan segir að ástandið sé orðið óásættanlegt að hans mati. Enginn geti sætt sig við þessi kjör að óbreyttu.

Hann segist ætla að leita að öðru starfi hvort sem það verður hér heima eða erlendis. Hann voni hinsvegar að það náist samningar og hann geti í samráði við sinn yfirmann dregið uppsögnina til baka. Eins og staðan sé geri hann hinsvegar ráð fyrir að vera í öðru starfi eftir fyrsta mars.

Læknarnir þrír voru allir í 60 prósent stöðu við Landspítalann. Þegar uppsagnirnar taka gildi verða eftir þrjú og hálft stöðugildi á deildinni á Landspítalanum. Fyrir nokkrum árum störfuðu átta til níu læknar við deildina. ,,Það hafa sex læknar hætt störfum við meltingardeildina á þremur árum. Þetta þýðir að það er gríðarlegt álag á þá lækna sem eftir eru. Menn finna því ekki aðeins fyrir lélegum launum, heldur einnig fyrir auknu vinnuálagi sem þeir eru ekki sáttir við.“

Rúmlega 79 prósent landsmanna styðja kjarabaráttu lækna samkvæmt nýrri netkönnun Capacent Gallup. Einn af hverjum tíu segist ekki styðja hana og ríflega 11 prósent hvorki styðja hana né ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×