Innlent

Þörfin fyrir byssurnar var óljós

Linda Blöndal skrifar

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna spyr hver hafi metið þörfina fyrir vopn hér á landi þegar í ljós kemur að hægt sé svo að skila þeim aftur.  Þingmaður Pírata segir málið tækifæri til að uppræta leyndarhyggju í stjórnsýslunni. Landhelgisgæslan hefur ákveðið að skila hríðskotabyssunum 250 sem bárust hingað til lands frá Norðmönnum. Þessi ákvörðun var tekin eftir viðræður við norska herinn sem vill fá greiðslur fyrir vopnin. 

Í tilkynningu frá gæslunni frá því í gær kemur fram að alltaf hafi verið litið á byssurnar sem komu til landsins í febrúar sem gjöf. Upplýsingafulltrúi norska hersins hafi hinsvegar sagt að undirritaður hafi verið kaupsamningur upp á rúmar 11 milljónir króna vegna þeirra. Landhelgisgæslan ítrekar að hún hafi hingað til ekki þurft að greiða fyrir vopn sem fengist hafi frá Norðmönnum á undanförnum áratugum og því ekki talið að um bindandi kaupsamning hefði verið að ræða. Öllum 250 hríðskotabyssunum sem komu í sendingunni í febrúar verður skilað og samráð var haft við Ríkislögreglustjóra um ákvörðunina.

Gróin leyndarhyggja

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata situr í allsherjarnefnd Alþingis sem hefur málið til umfjöllunar. Hann segir enn eigi eftir að komast til botns í því hvernig málið þróaðist og nefndin muni skoða það nánar. „Mér þykir þetta fyrst og frems gleðiefni en mér finnst tvennt skipta mestu máli í þessu. Það er annars vegar eftirlit Alþingis og þá almennings, með því hvernig þessum málum er háttað almennt. Sömuleiðis stendur eftir að leyndahyggjan sem er rótgróin hér. Ekki að það hafi verið ákveðið eftir einhverjar umræður heldur virðast hlutirnir hafa þróast þannig að einhverjum hluta óvart. Við þurfum að leggjast yfir það hvernig við viljum hafa hlutina almennt . Við höfum ekki spurt okkur nógu alvarlega um það", sagði Helgi Hrafn í fréttum Stöðvar tvö í kvöld.

Hver mat þörfina?

„Ég hef lagt fyrirspurn á þinginu sem ég bíð svars við sem snýst u það hvernig svona ákvarðanir eru teknar, hvort það liggi einhver þarfagreining að baki. Hver tekur ákvarðanir um hvernig byssur þurfi, hve margar og hvernig á að nýta þær", sagði Katrín Jakobsdóttir í fréttum í kvöld. „Og það að það sé hægt að skila byssunum núna, eins og Landhelgisgæslan ætlar nú að gera þar sem þeir hafa takmarkaða fjármuni, þá veltir maður fyrir sé hvar liggur þá þarfagreiningin?", sagði Katrín.

Ekki skotið síðan í Þorskastríðunum
Í tilkynningu Gæslunnar segir að endurnýjun vopna teljist ekki til forgangsverkefna stofnunarinnar og því hafi ekki komið til greina að greiða fyrir vopnin. Ekkert virðist því hafa kallað á að þessar byssur hefðu þurft hjá stofnuninni.  En í tilkynningunni stendur meðal annars þetta: „Það er að sumu leyti gæfa okkar sem friðsamrar þjóðar að vopn séu ekki mikilvægasti búnaðurinn sem heyrir til okkar starfsemi. Raunar hefur Landhelgisgæslan ekki hleypt af skoti í tengslum við verkefni sín í um fjóra áratugi, eða frá því í Þorskastríðunum. Vonandi verður þess enn langt að bíða".

Lögreglan átti að fá meirihlutann

Meirihluti vopnanna var þó ætlaður lögreglunni en ekki náðist í neinn hjá Ríkislögreglustjóra í dag vegna málsins né forstjóra Landhelgisgæslunnar. Ekki er útilokað að norðmenn hafi þrýst á um að fá byssurnar aftur eftir að málið vakti athygli í þarlendum fjölmiðlum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.