Innlent

LÍN tapaði og gert að greiða 350 þúsund

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/valli
Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) beið lægri hlut í dómsmáli í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Sjóðurinn taldi konu sem tekið hafði námslán hafa verið í tæplega 750 þúsund króna vanskilum og höfðaði því mál á hendur henni og föður hennar, sem tekist hafði hendur á sjálfskuldarábyrgð. Konan var sýknuð af öllum kröfum og LÍN gert að greiða allan málskostnað, alls 350 þúsund krónur.

Konan tók námslán árið 2001 og skrifaði hún þá undir skuldabréf til viðurkenningar á skuld sinni við lánasjóðinn. Fram kemur á skuldabréfinu að hún hafi fengið heimild til að greiða fjárhæð lánsins inn á bankareikning lántakanda við námslok, miðað við þágildandi vísitölu neysluverðs. 

Endurgreiðsla lánsins átti að hefjast tveimur árum eftir námslok og fara fram með árlegum greiðslum, sem ákveðnar yrðu í tvennu lagi. Annars vegar væri föst ársgreiðsla 52.698 krónur og hins vegar viðbótargreiðsla sem miðaðist við 4,75% af útsvarsstofni næsta árs á undan endurgreiðsluári. Frá viðbótargreiðslunni skyldi dragast hin fasta greiðsla lánsins og skyldi gjalddagi viðbótargreiðslunnar vera 1. september ár hvert.

Fram kemur í stefnu að greiðslur samkvæmt skuldabréfinu hafi verið í vanskilum frá mars 2006 og vanskilin talin vera að höfuðstól um 745 þúsund krónur. Inn á skuldina voru greiddar 100 þúsund krónur árið 2008.

Þegar krafa konunnar voru lög í gildi nr. 14/1905, en þau lög voru felld úr gildi með lögum um fyrningu kröfuréttinda sem öðluðust gildi árið 2008. Því segir í niðurstöðu dómsins: „Í skuldabréfi því, sem stefnandi reisir rétt sinn á samkvæmt framansögðu, er mælt fortakslaust fyrir um að lán sé allt gjaldfallið án uppsagnar ef ekki eru staðin skil á greiðslu afborgana á réttum tíma. Samkvæmt hljóðan skuldabréfsins féll það allt í gjalddaga þann 1. mars 2006.“

Því séu kröfur lánasjóðsins fyrndar og honum gert að falla frá þeim ásamt því að greiða allan málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×