Innlent

Google leigir flugvöll af NASA til 60 ára

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Á svæðinu er ein stærsta byggingu í heimi.
Á svæðinu er ein stærsta byggingu í heimi. Vísir / Jitze Couperus
Google hefur gert 60 ára leigusamning við bandarísku geimferðastofnunina NASA á Moffett flugvellinum. Leigusamningurinn nær yfir landsvæðið og þær byggingar sem þar eru að finna. Þar á meðal er Hangar One, risastórt flugskýli sem byggt var á fjórða áratug síðustu aldar.

Leigusamningurinn felur í sér 1,16 milljarða dala, jafnvirði 144 milljarða íslenskra króna, greiðslur frá Google til NASA á leigutímanum. Unnið hefur verið að samningum síðan í febrúar.

„Við viljum nota fjármuni skattgreiðenda til að fjárfesta í vísindalegum uppgötvunum, tæknilegri þróun og geimferðum – ekki í að halda við innviðum sem við notum ekki lengur,“ sagði Carles Bolden, stjórnandi hjá NASA, í yfirlýsingu vegna samningsins.

Google hefur uppi áform um að eyða 200 milljónum dala, jafnvirði 25 milljarða króna, í endurbætur á svæðinu. Fjármunirnir munu meðal annars fara í lagfæringar á Hangar One og tveimur öðrum flugskýlum á svæðinu. Þá mun hluti peninganna fara í uppbyggingu á þekkingarsetri sem á að gefa almenningi kost á að kynna sér þátt svæðisins í tækniþróunarsögu heimsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×