Innlent

Auðmjúkur Ari

Jakob Bjarnar skrifar
Ari boðar enga byltingu: "Ég lít ekki svo á að nú sé runnið upp árið eitt í íslensku leikhúsi - Þjóðleikhúsið 64 ára gömul stofnun.“
Ari boðar enga byltingu: "Ég lít ekki svo á að nú sé runnið upp árið eitt í íslensku leikhúsi - Þjóðleikhúsið 64 ára gömul stofnun.“
Fyrir stundu tilkynnti menntamálaráðherra um skipan nýs Þjóðleikhússtjóra og varð Ari Matthíasson, framkvæmdastjóri hússins, fyrir valinu. Fréttastofa náði tali af Ara rétt fyrir fréttir.

„Ég er auðvitað fullur auðmýktar gagnvart þessu starfi og meðvitaður um það að ég er hér að ganga til starfa sem Þjóðleikhússtjóri í mjög merkilegri stofnun og mikilvægri fyrir íslenskt samfélag. Þjóðleikhúsið er auðvitað í eigu íslensku þjóðarinnar. Ég er mjög auðmjúkur þegar ég tek við þessu.“

Nú hefur þú starfað um árabil sem framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins og þekki því hvern krók og kima og rekstrarstöðu hússins. Þú gengur þá ekki gruflandi að þessu verkefni?

„Já, ég get ekki skotið mér á bak við það að hafa ekki vitað hver rekstrarstaða Þjóðleikhússins er,“ segir Ari kíminn. „En, ég hef bæði starfað sem leikari, leikstjóri og framleitt leiksýningar. Og svo hef ég líka séð um að framleiða leiksýningar hinum megin frá, út frá rekstri, sem framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins. Þannig að ég þekki leikhússtarfsemi, vil ég meina, alveg ofan í kjölinn.“

Hefðbundin spurning og óhjákvæmileg við tækifæri sem þessi er að spyrja hvort áherslur muni breytast?

„Já, þær munu eflaust breyst. Það verður nú ekki nein bylting. Ég lít ekki svo á að nú sé runnið upp árið eitt í íslensku leikhúsi heldur er Þjóðleikhúsið 64 ára gömul stofnun og ég held að á tímum Tinnu Gunnlaugsdóttur, undanfarin tíu ár, hafi Þjóðleikhúsið verið býsna vel rekið. Og það eru margar mjög góðar og merkilegar áherslur sem Tinna hefur lagt í sínu starfi; hún hefur reynt að efla íslenska leikritun, efla hlut kvenna og lagt mikla áherslu á barnastarf. Ég vil halda þessu öllu áfram. Ég vil líka færa Þjóðleikhúsið nær landsbyggðinni eins og hægt er. Mér finnst því miður að við höfum ekki getað komið nógu mikið út á landi. Ég vil auka það. Svo vil ég segja; ég hef einfaldan smekk – ég vil aðeins setja upp frábærar leiksýningar,“ segir Ari Matthíasson, nýr Þjóðleikhússtjóri.

Ingimundur Sigfússon segir ekkert fjær sér en deilur og átök.
Ingimundur hættir í sátt og samlyndi

Við svo búið var Ari rokinn, hann þurfti sem framkvæmdastjóri að kynna nýja fjárhagsáætlun Þjóðleikhússins. Víst er að í mörg horn er að líta við þessi tímamót. Finna þarf nýja framkvæmdastjóra og þá greindi Vísir frá því í gær að Ingimundur Sigfússon hefði sagt sig frá Þjóðleikhúsráði, sem formaður þess, en ráðið fundar í dag. Vísir náði tali af Ingimundi í morgun og innti hann eftir ástæðum þess að hann sagði af sér sem formaður Þjóðleikhúsráðs?

„Ég ákvað að hætta, ákvað það á mánudaginn var. Þá setti ég inn í ráðuneytið mína afsögn. Þetta er nú bara vegna þess að ég er búinn að vera þarna í meira en sjö ár og mér finnst það tilhlýðilegt að ég hætti núna þegar nýr leikhússtjóri tekur við. Þá komi nýr maður í staðinn fyrir mig. Það er nú bara ástæðan,“ segir Ingimundur.

Hann segist hafa haft mikla gleði af veru sinni í ráðinu. „Og mun, útaf fyrir sig, sakna þess. En, þetta er bara rétti tíminn fyrir mig og ég verð að hugsa um það.“

Ingimundur segir engan ágreining hafa orðið þess valdandi að hann ákvað að gefa ekki kost á sér áfram: „Enginn ágreiningur. Ekkert verra sem ég veit en standa í ágreiningi og deilum. Það er mér mjög lítt að skapi, það er ekkert svoleiðis.“


Tengdar fréttir

Vandræðagangur við skipan þjóðleikhússtjóra

Margir innan leikhúsheimsins furða sig á því hvernig á því stendur að ekki er búið að skipa í stöðu þjóðleikhússtjóra en umsóknarfrestur rann út 1. september.

Tinna aftur á leiksviðið

Fyrsti samlestur á Sjálfstæðu fólki var í morgun. Þorleifur Örn Arnarson leikstjóri mun leikstýra jólasýningu Þjóðleikhússins.

Krísa innan Þjóðleikhússins

Upp er komin flókin og erfið staða innan Þjóðleikhússins vegna hugsanlegra hagsmunatengsla Tinnu Gunnlaugsdóttur Þjóðleikhússtjóra en til stendur að hún taki að sér tvö hlutverk á sviðinu þar innan tíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×