Innlent

Reyndi ítrekað að hrækja og sparka í lögreglumenn

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mikið að gera hjá lögreglunni í nótt.
Mikið að gera hjá lögreglunni í nótt. Vísir
Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt en rétt fyrir miðnætti í gær var tilkynnt um innbrot á heimili í Austurborginni. Innbrotsþjófurinn spennti upp glugga og fór inn. Stolið var sjónvarpi og fartölvu.

Nokkrir ökumenn eru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna eftir nóttina.

Maður var handtekinn um borð í erlendu skipi í Hafnarfjarðarhöfn á fimmta tímanum í nótt og er hann grunaður um líkamsárás. Maðurinn sem var í mjög annarlegu ástandi var vistaður í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hann.

Klukkan tvö í nótt var maður handtekinn við Höfðabakka í mjög annarlegu ástandi. Maðurinn réðst á lögreglumenn við afskipti hennar og var í kjölfarið vistaður í fangageymslu.

Um kvöldmatarleytið í gær var maður handtekinn við veitingahús í Miðborginni grunaður um líkamsárás. Maðurinn er grunaður um að hafa slegið starfsmann veitingahússins í andlitið með glasi. Starfsmaðurinn skarst í andliti og ætlaði sjálfur að leita aðstoðar á Slysadeild. Ofbeldismaðurinn var í mjög annarlegu ástandi og var hann vistaður í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hann.

Um svipað leyti barst lögreglunni tilkynningu um meðvitundarlausan mann á stigagangi íbúðarhúss í Miðborginni. Maðurinn var fluttur á Slysadeild til aðhlynningar en á vettvangi fundu lögreglumenn Kannabisræktun.

Á öðrum tímanum í nótt fékk lögreglan tilkynningu um slys á Frakkastíg en þar fannst kona sem hafði dottið á andlitið. Konan var blóðug í andliti og kenndi eymsla í vinstri hendi og var því flutt á slysadeild í sjúkrabifreið.

Um klukkan fjögur í nótt hafði lögreglan afskipti af erlendum manni í Miðborginni vegna annarlegs ástands. Maðurinn reyndi að hlaupa frá lögreglumönnum en datt þá á höfuðið. Maðurinn var fluttur á Slysadeild til aðhlynningar og síðan í fangageymslu þar sem hann var vistaður meðan ástand hans lagast. Maðurinn reyndi ítrekað að hrækja og sparka í lögreglumenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×