Innlent

Hátt í fimm þúsund óskuðu eftir jólaaðstoð

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ásgerður Jóna Flosadóttir.
Ásgerður Jóna Flosadóttir. vísir/gva
Hátt í fimm þúsund óskuðu eftir aðstoð Fjölskylduhjálpar fyrir síðustu jól. Formaður nefndarinnar býst við auknum fjölda fyrir komandi jól og hafa því tvær nýjar starfsstöðvar verið opnaðar.

„Við erum að opna í Kópavogi og Hafnarfirði og lítum á þetta sem svo að við séum að færa þjónustuna nær til þeirra sem þurfa á að halda. Við höfum hingað til verið í Reykjavík og á Suðurnesjum en erum himinlifandi yfir þessum tveimur nýju starfsstöðvum,“ segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands.

Ný varanleg starfsstöð hefur verið opnuð í Hamraborg 9 í Kópavogi þar sem öll matarúthlutun og jólaaðstoð til Kópavogsbúa verður afgreidd ásamt nytjamarkaði sem þar hefur opnað. Þá hefur starfsstöð opnað við Strandgötu 24 í Hafnarfirði sem starfrækt verður fram að áramótum.

„Fjöldinn verður líklega mun meiri en á síðasta ári. Það er til dæmis vegna þess að það eru svo margir sem eru búnir að missa fasteignir sínar, eru á lágum launum og greiða háa húsaleigu og ná þar af leiðandi ekki endum saman. Manneskja sem hefur verið í þrjú ár á atvinnuleysisbótum fer á framfærslu sveitarfélagsins. Í tilfelli Reykjavíkurborgar fær fólkið 169 þúsund krónur á mánuði. Þarf þá að borga húsaleigu og lyfjakostnað og þá er ekkert eftir,“ segir Ásgerður.

Hún segir að byrjað verði að skrá niður fólk sem óskar þess að fá aðstoð fyrir jólin í lok þessa mánaðar. „Við biðlum til fólks að koma með notaðan og nýjan fatnað og til þeirra góðgerðarfélaga sem ekki standa í matargjöfum að þau styðji við okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×