Innlent

Gassprengingin í Grundargerði: Stúlkurnar þakklátar að vera á lífi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi í október 2008.
Frá vettvangi í október 2008. Vísir/Stefán
„Ég hélt utan um hana. Hún hríðskalf öll og hárið var varla lengur hár. Hún var eins og plastpoki í framan sem var búinn að springa,“ sagði Halla Arnar, íbúi í Melgerði, í þættinum Neyðarlínan á Stöð 2 í gærkvöldi. Til umfjöllunar var gassprengingin í Smáíbúðarhverfinu í Fossvogi í október 2008.

Málið vakti mikla athygli á sínum tíma enda aðstæður sérstakar. Fjórir drengir og tvær stúlkur á aldrinum 13-16 ára brenndust afar alvarlega eftir að hafa verið að sniffa gas í vinnuskúr í Grundargerðisgarðinum. Eldur kviknaði í skúrnum sem slökkviliðinu gekk nokkuð greiðlega að slökkva en lengi vel ríkti mikil óvissa um hve margir hefðu verið í skúrnum þegar hann sprakk. Þá gekk illa að hafa uppi á krökkunum sem hlupu í allar áttir, logandi hrædd og gátu sum hver ekki horft á eigin líkama.

Halla Arnar var í baði á heimili sínu þegar hún heyrði öskur. Engin venjuleg öskur.

„Fyrst heyrði ég hvell og svo óp. Þetta voru nístingsleg óp, neyðaróp. Engir unglingaskrækir,“ segir Halla. Þegar út var komið sá hún stúlkurnar tvær sem var eðli málsins samkvæmt í afar miklu uppnámi.

„Ég mæti þessu stelpum og fattaði eins og skot hvað var að gerast. Þær voru blóðugar og brenndar í framan,“ segir Halla sem hafði reynslu af brunasárum. Hún vissi að kæla ætti brunasárin í volgu vatni. Hún sinnti annarri stelpunni en eiginmaður hennar hinni.

Halla segir stelpurnar hafa verið logandi hræddar og ítrekað spurt hvernig andlit þeirra væru farin.

Slökkviliðsmenn við störf í Grundargerði.Vísir/Stefán
Stakk nöglunum í kútinn

Stúlkurnar tvær, Ásdís Helga Höskuldsdóttir og Lana Elísabet Nikulásdóttir, stigu fram í þætti gærkvöldsins. Vilja þær verða öðrum víti til varnaðar sem gæti dottið í hug að það væri sniðugt að sniffa gas. Þær segjast báðar þakklátar að vera á lífi í dag því mun verr hefði getað farið.

Ásdís útskýrir hvernig hópurinn hafi komið við í görðum á göngu sinni um hverfið og tekið tvo gaskúta í leyfisleysi. Þaðan hafi þau haldið í fyrrnefndan skúr þar sem þau sátu í líklega þrjár klukkustundir.

„Ég er akkurat að fara að stinga nögglunum í kútinn til að fá mér gas og þá bara splundrast allt,“ segir Ásdís Helga. Eldri bróðir hennar var einnig á staðnum en honum tókst að opna dyrnar að skúrnum. Skipti það miklu máli en Ásdís segist ekki hafa getað náð andanum fyrr en dyrnar, sem stóðu í ljósum logum, voru opnaðar.

„Ég gat ekki horft á hendurnar mínar. Ég gat heldur ekki horft á Lenu því hún var grá í framan og allt tætt.“

Þegar Lena lítur um farinn veg segist hún ekkert skilja hvers vegna hópurinn var að þessari vitleysu. Hún mun eftir því þegar hún rankaði við sér á gólfinu og vissi varla hvar hún var stödd. Svo sá hún Ásdísi reyna að flýja úr skúrnum en féll um spegil sem hafði mölbrotnað í sprengingunni.

„Ég horfði á höndina á mér og húðin var hangandi,“ segir Lena og bætir við að lyktin hafi verið hrikaleg.

Dramatískt símtal í Neyðarlínuna

Á meðan stelpurnar komust í umsjá Höllu og manns hennar hlupu strákarnir fjórir niður á Sogaveg. Einn varð viðskila og hljóp í verslun Hagkaupa í Skeifunni þar sem hann bað um aðstoð. Hinir þrír hringdu í Neyðarlínuna og stöðvuðu svo bíl á Sogavegi. Réttu þeir konunni sem ók bílnum símann og hjálpaði hún til við að miðla upplýsingum til lögreglu.

Óhætt er að segja að símtalið í Neyðarlínuna sé sláandi en á það má hlusta í spilaranum hér að neðan.



Olgeir Helgason, íbúi við Sogaveg, var heima við ásamt syni sínum. Litu þeir út um gluggann og sáu eld. Olgeir hringdi í Neyðarlínuna til að tilkynna um eldsvoðann en þá hafði sonur hans áttað sig á því að einhver hefði slasast. Hafði hann þá séð til drengjanna öskdrandi og skaðbrennda úti á götu. Var sjúkrateymi í kjölfarið sent út.

Mikill viðbúnaður var hjá slökkviliði og sjúkrabíl þetta kvöld. Í fyrstu var reyndar aðeins einn lögreglubíll sendur á vettvang en um leið og tíðindi bárust að slys hefði mögulega orðið á fólki voru sex sjúkrabílar sendir af stað auk aukins lögregluafls.

Hörður Jóhannesson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að fyrstu upplýsingar sem lögreglunni hafi borist hafi verið á þá leið að krakkar hafi verið að fikta með eld. Fljótlega komu meiri upplýsingar en erfitt hafi reynst að finna út hve margir hefðu slasast.

„Yfirleitt bíður fólk sem slasast eftir aðstoð og þiggur hana. Þarna urðu krakkarnir hins vegar hræddir og forðuðu sér.“

Framhlið skúrsins fór af.Vísir/Stefán
Ótrúlegt að þau hafi lifað af

Þótt öll ungmennin væru illa farin fór bróðir Ásdísar verst út úr brunanum. Hann hafði hlaupið í gegnum eldslogann til að opna dyrnar og komast út. Valgerður Margrét Gunnarsdóttir, móðir hans, segir kraftaverk að hann hafi lifað brunann af.

Drengurinn hlaut 54 prósent bruna. Valgerður segir að læknar hafi meðal annars talið að hann myndi missa aðra höndina og sömuleiðis var óvissa um eyru hans. „Það er skelfilegt að sjá barnið sitt svona,“ segir Valgerður. Trúin hafi reynst henni mikill styrkur þegar svo illa var komið fyrir börnunum.

„Það er ótrúlegt að þau hafi lifað þetta af og ekki sjáist meira á þeim í dag. Ég lít á þetta sem kraftaverk.“

Víti til varnaðar

Vinkonurnar tvær þakka sem fyrr segir fyrir að vera á lífi. Aðspurðar hvaða skilaboð þær vilji senda til annarra sem mögulega hafi hug á að prófa að sniffa gas vilja þær benda á að það sé afar heimskulegt. Þær hafi vissulega verið meðvitaðar um hættu þegar þær ákváðu að prófa en hugsað sem svo að ekkert myndi koma fyrir sig.

„Eitthvert okkar hefði alveg getað dáið,“ segir Lena.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×