Innlent

Handtekinn grunaður um líkamsárás

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/daníel
Karlmaður og kona voru handtekin í miðborg Reykjavíkur laust fyrir klukkan fimm í nótt. Konan lét ófriðlega og er maðurinn grunaður um líkamsárás. Sá sem fyrir árásinni varð fór á slysadeild og er líklega nefbrotinn. Þau voru bæði vistuð í fangageymslur fyrir rannsókn máls.

Þá var ölvuð kona handtekin rétt fyrir klukkan eitt í nótt í Austurstræti en hún gat lítið tjáð sig og var ósjálfbjarga og var því vistuð í fangageymslu.

Ölvuð kona var handtekin við Smárann í Kópavogi um hálf eitt í nótt. Lögreglumenn ætluðu í fyrstu að reyna að koma konunni heim en hún vildi ekki gefa upp kennitölu eða heimilisfang. Hún var því færð á lögreglustöð og vistuð í fangageymslu meðan ástand hennar lagast.

Þá voru tveir erlendir ferðamenn handteknir rétt eftir klukkan ellefu í gærkvöld en þeir höfðu verið með ólæti og brotið rúðu í bifreið.

Eitthvað var um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna en ökumenn voru meðal annars stöðvaðir í miðborginni, í Breiðholti og á Langholtsvegi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×