Innlent

Dregið úr tíðni áverka í munni hrossa

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/karl óskarsson
Dregið hefur úr tíðni áverka í munni keppnis- og kynbótahrossa frá árinu 2012. Vitundarvakning um heilbrigði munnsins er talin meginástæða fyrir lækkun á tíðni áverka í munnvikum og kinnum. Þetta kemur út í skýrslu um niðurstöður heilbrigðisskoðana á keppnis- og kynbótahrossum á Landsmóti hestamanna og Íslandsmóti í hestaíþróttum 2014. Þá var áberandi minna um alvarlega áverka yfir kjálkabeini á tannlausa bilinu og ekki þörf á að vísa neinum hesti frá keppni af þeim sökum.

„Enginn vafi leikur á að bann við notkun stangaméla með tunguboga í keppni á þar stærstan  hlut að máli enda er sambærilega þróun ekki að sjá meðal kynbótahrossa þar sem mélin eru enn í notkun,“ segir í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Í tilkynningunni segir jafnframt að áverkar vegna þrýstings frá mélum  í munni keppnis- og kynbótahrossa árið 2012 hafi verið algengir. Alvarlegustu áverkana var að finna yfir og á tannlausa bilinu á kjálkabeini neðri kjálka.

Sterk og hámarktæk tengsl voru á milli notkunar á stangamélum með tunguboga og áverka á kjálkabeini. Ríflega helmingur þeirra hrossa sem hafði verið riðið við stangamél með tunguboga  voru með áverka á kjálkabeini fyrir úrslit, í flestum tilfellum alvarlega. Þessir áverkar voru nánast ekki til staðar hjá hrossum sem hafði verið riðið við aðrar gerðir méla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×