Innlent

Verður sagt upp nýti þeir sér andmælarétt

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Strætó sendi nýverið bréf til vagnstjóra sinna þar sem þeim var tilkynnt að til stæði að koma fyrir myndavélabúnaði í strætisvögnum fyrirtækisins. Sú krafa er gerð að allir vagnstjórar samþykki búnaðinn. Þá segir í bréfinu að þeir hafi andmælarétt, en nýti þeir sér hann verði þeim sagt upp störfum.

Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun Reykjavík vikublaðs.

Til stendur að koma myndavélum fyrir í 30 vögnum og hefur undirbúningur staðið yfir í nokkurn tíma. Reykjavík vikublað segir óánægju meðal starfsmanna vegna þessa.

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir í samtali við Reykjavík vikublað að augljóslega gangi ekki upp að einstaka starfsmenn séu undanþegnir upptökukerfinu. Þess vegna hafi verið leitað samþykkis allra.

„Ef það eru starfsmenn sem sætta sig bara alls ekki við, eins og starfsmenn annarra fyrirtækja þar sem myndavélakerfi eru sett upp, að þeir verði í mynd þá gengur það auðvitað ekki upp,“ er haft eftir Reyni.

Hann segir að Strætó hafi verið í góðu samstarfi við persónuvernd í þessu ferli og gangi í raun lengra en persónuverndarákvæði segi til um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×