Enski boltinn

Valdi Chelsea fram yfir Harvard

Gumundur Marinó Ingvarsson skrifar
Fagnar marki gegn Liverpool í deildarbikarnum.
Fagnar marki gegn Liverpool í deildarbikarnum. vísir/getty
Framherjinn ungi Patrick Bamford hjá Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta segist hafa íhugað að fara í nám til Bandaríkjanna en valdi atvinnumennsku í fótbolta.

Hinn 21 árs gamli Bamford er á láni hjá Middlesbrough í Championship deildinni en hann gekk til liðs við Chelsea frá Nottingham Forest fyrir tveimur árum.

„Þegar ég var hjá Forest sótti ég um í háskólum til öryggis ef fótboltinn gengi ekki upp. Ég hafði ekki áhuga á að fara ensku leiðina,“ sagði Bamford við enska fjölmiðla en hann hefur skorað tvö mörk í fimm leikjum fyrir Middlesbrough í upphafi leiktíðar.

„Ég sótti um erlendis og Harvard bauð mér skólavist. Það hafði meira með fótbolta að gera en ég hefði einnig getað lært viðskiptafræði. Þegar ég vissi ég gæti komist áfram í fótboltanum varð Harvard til vara.“

Bamford skoraði 8 mörk í 21 leik sem lánsmaður hjá Derby County á síðustu leiktíð og á enn eftir að leika fyrir aðallið Chelsea.

„Stefnan var að vera áfram hjá Chelsea og vera þriðji framherji þar. En svo gat liðið fengið Didier Drogba aftur.

„Jose (Mourinho) sagði að ef ég vildi gæti ég verið áfram hjá liðinu en fyrir framþróun mína og til að vera viss um að vera tilbúinn fyrir Chelsea taldi ég best fyrir mig að fara aftur að láni og fá að spila.

„Ég veit hvað bíður mín. Fyrir utan einstaka undantekningu eru leikmenn hvorki andlega tilbúnir né nógu þroskaðir til að leika fyrir aðalliðið fyrr en þeir eru 22 eða 23 ára gamlir. Ég mun því bíða og bæta mig áfram og fæ svo vonandi tækifærið,“ sagði Bamford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×