Innlent

Nemendur boðnir velkomnir í friðarferð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nýnemum í Menntaskólanum við Sund var boðið í Viðey
Nýnemum í Menntaskólanum við Sund var boðið í Viðey aðsend mynd
Brotið var blað í sögu innvígslu nýnema í Menntaskólanum við Sund á mánudaginn þegar skólafélag skólans ákvað að bjóða nýnemum í friðarferð í Viðey. Áður höfðu nýnemar þurft að ganga í gegnum niðurlægjandi þrautir og aðferðir sem voru afar umdeildar.

Nýnemum var boðið upp á hláturjóga, ýmsa leiki og brekkusöng. Rögnvaldur Þorgrímsson, ármaður skólafélags MS, segir að ferðin hafi heppnast frábærlega vel og nýnemum, sem hafi áður verið með kvíðahnút í maganum fyrir busavígslurnar, hafi verið stórlega létt

„Þegar maður lítur til baka, þá var ekkert flott við það hvernig þessar busavígslur voru. Nemendum var skipað að drekka mysu, þeir niðurlægðir og látnir gera mjög líkamlega erfiðar þrautir sem fjórðu bekkingar skemmtu sér síðan yfir. Þetta var náttúrulega bara ofbeldi sem var kominn tími til að leggja niður,“ segir Rögnvaldur.

Kennarar og rektor skólans mættu í ferðina. ,,Þetta gekk bara frábærlega og var miklu skemmtilegra að brjóta upp þessa busahefð og gera eitthvað skemmtilegt í staðinn. Hláturjógað setti svo alveg punktinn yfir i-ið. Það tóku allir þátt og það var alveg meiriháttar að fara inn í veturinn með svona skemmtilegum viðburði. Meira að segja veðurguðirnir virtust sáttir, því það var bara ágætis veður á meðan við vorum þarna,“ segir Rögnvaldur ennfremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×