Innlent

Hundur fannst í ruslagámi: „Kannski hefði verið hægt að bjarga þessum hundi“

Jakob Bjarnar Grétarsson skrifar
Árni Stefán fer hörðum orðum um þá sem fara með dýr á þennan hátt.
Árni Stefán fer hörðum orðum um þá sem fara með dýr á þennan hátt.
Lögregla var kölluð að ruslagámi við sumarbústaðabyggð norðan Borgarness fyrir nokkrum dögum og fann þar stóran Border Collie-hund nær dauða en lífi.

Eigandi sumarhúss hafði ætlað að kasta rusli í gáminn en heyrði þá þungan andardrátt berast þaðan og þorði ekki að kanna það nánar eins og Vísir greindi frá í gær. Hann kallaði til lögreglu sem komst að því að í gámnum var stór Border Collie-hundur í strigapoka. Hann var með áverka, líkt og á hann hafi verið ekið og var ekki um annað að ræða en aflífa dýrið þá þegar.

Að sögn lögreglu gerðist þetta fyrir nokkrum dögum, 27. ágúst, og hefur lögregla rannsakað málið, til dæmis með því að ræða við bændur í nágrenni en ekki komist að neinu sem gæti varpað frekara ljósi á það. Þetta var ekki gamall hundur, segir varðstjóri í samtali við fréttastofu, hann var ekki örmerktur né með ól.

Árni Stefán Árnason, lögfræðingur sem sérhæft hefur sig í réttindum dýra, segir atburðinn að sönnu skelfilegan. Hann segir atvik sem þessi ekki algeng en setur þó þann fyrirvara á að líkast til viti fólk minnst um það þegar eitthvað á borð við þetta komi uppá. Árni vonar að þessi dýrafantur, sem skyldi svo við dýrið, sofi ekki vegna slæmrar samvisku og ef hann finnst verði gefin verði út ákæra og hann sektaður ærlega og verði bannað að halda dýr fyrir lífstíð.

„Þetta er afskaplega alvarlegur hlutur og því miður eiga umráðamenn það til að bregðast svona við í stað þess að leita dýralæknis. Þetta lýsir ákveðnu virðingaleysi fyrir lífi dýra og skorti á samvisku að virða þann rétt dýranna til að fá að njóta aðhlyniningar. Kannski hefði verið hægt að bjarga þessum hundi en engin viðleitni var til þess þó það sé skylt samkvæmt dýraverndunarlögum.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×