Innlent

Sagan geymir afar öflug þeytigos

Svavar Hávarðsson skrifar
Fréttablaðið/Auðunn
Eftir þriggja vikna linnulausar jarðhræringar í og við Vatnajökul, sem teljast þegar með markverðustu jarðvísindalegu atburðum sem vísindamenn og almenningur á Íslandi hafa orðið vitni að, beinast augu manna sérstaklega að siginu í öskju Bárðarbungu. Jarðvísindamenn telja umbrotin þar sérstakt áhyggjuefni.

En hvað segir sagan okkur um eldsumbrot í eldstöðvakerfi Bárðarbungu, og hvers er að vænta ef eldgos hefst undir jökli, eins og menn óttast nú?

Mörg gos í árþúsundir

„Þegar verið er að mála sviðsmyndir, þrjár til fjórar eins og nú er gert, er það meðal annars gert með hliðsjón af eldfjallasögunni, og þá auðvitað sögu Bárðarbungukerfisins. Á síðastliðnum 10.000 árum eða svo finnast um 100 aðskilin ummerki um eldgos í kerfinu. Mest eru þetta gjóskulög í jarðvegi og einum ískjarna, en líka hraun,“ segir Ari Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur og rithöfundur, en eftir hann liggja um tveir tugir bóka um náttúru landsins, ekki síst jarðfræðirit og bækur um sögu íslenskra eldstöðva.

Ari Trausti útskýrir að ekkert gjóskulaganna frá eldstöðvakerfi Bárðarbungu sé mjög þykkt, nema þau sem upprunnin eru úr suðurhluta kerfisins. Lítið er í raun hægt að segja um önnur gjóskulög, hvort þau hafa komið úr gosi í þeim hluta sprungu­reinar Bárðarbungu sem þakin er jökli eða úr gosi í eldfjallaöskjunni sjálfri.

„Þykku gjóskulögin má rekja t.d. til Vatnaöldugossins um 870 og Veiðivatnagossins nálægt árinu 1480. Enda þótt fátt sé um mikil forsöguleg gjóskulög geta samt hafa orðið öflug gjóskugos í eða við Bárðarbungu. Ástæðan er einfaldlega sú að útbreiðsla jökla fyrir allt að 14.000 árum var önnur en nú, og mikið af hraunum hefur runnið á áhrifasvæði eldstöðvakerfisins í árþúsundir. Sýnileiki gjóskulaga er þar með ekki alltaf fyrir hendi og í mikilli fjarlægð frá Bárðarbungu getur gjóskulag úr öflugu gosi verið frekar þunnt. Svo er vitað um nokkur forsöguleg hamfarahlaup niður Jökulsá á Fjöllum og óvíst hvort þau stöfuðu öll eða einhver af eldsumbrotum – brostnar jökulstíflur og tæmd lón hafa líka verið nefnd til sögunnar. Hafi eitthvert hlaupanna átt upptök í gosi undir jökli í Kverkfjöllum eða Bárðarbungu, getur það komið heim og saman við afar öflug þeytigos,“ segir Ari Trausti.

Ari Trausti guðmundsson
Ekkert viðlíka sést

Hraun í Bárðarbungukerfinu eru mörg og teljast sum merki um stórar og miklar aðfærsluæðar kviku. Þær má tengja kvikuhólfi Bárðar­bungu eingöngu eða líka kviku úr dýpri þró þar undir. Samvirkni þarna á milli kemur enn fremur til greina. Þarna kom upp Þjórsárhraun fyrir rúmum 8.000 árum; stærsta hraun sem vitað er um hér á landi síðastliðin 10.000 ár. Nokkur stór hraun, svokölluð Tungnaárhraun, og mikill hraunstraumur niður Bárðardal einnig, og raunar koma líka við sögu fleiri hraunbreiður sem eru mun stærri en hraunið sem nú rennur fyrir norðan sporð Dyngjujökuls.

„Almannavarnir og vísindamenn horfa nú til atburðanna í Bárðarbungu og eru að vonum áhyggjufullir yfir sumum sviðsmynda sinna. Viðlíka skjálftavirkni og er nú í eldfjallinu og hreyfingar í öskjunni hafa ekki sést fyrr á mælum hér á landi. Fleiri en ein leið er til að túlka og skýra atburðina. Það er þó ekki brýnt í bili og líka rétt að láta allar spár eiga sig, en gera engu að síður ráð fyrir að mjög öflugt gos geti hafist í Bárðarbungu sjálfri. Eins, og jafnvel samtímis, að gjósi undir Dyngjujökli og á íslausu landi og þá einnig mun meira en í augnablikinu. Það er heldur ekki fullvíst að hamfarir í Bárðarbungu hafi mikil áhrif á Holuhraunsgosið úr stóru kvikufylltu sprungunni, eða bergganginum. En auðvitað getur gos í Bárðarbungu orðið minna en verstu sviðsmyndir gera ráð fyrir,“ segir Ari Trausti.

Þeytigos

Sagan segir okkur að ef öflugt gos verður, annaðhvort á sveigsprungum innan við öskjurimann í Bárðarbungu, úr sprungum á öskjubotninum eða úti í hlíðum fjallsins, hefst það sem gos fastra efna sem bræða jökulís. Fljótlega – hér er það háð staðsetningu og stærð eldgossins hvort um klukkustundir eða daga er um að ræða – hefst svo þeytigos með mikilli gjósku.

„Gjóskan berst fyrir vindi eins og við þekkjum vel og getur orðið afar óþægileg og skemmandi, þótt benda megi á að fjallið er nánast í miðju landsins og alllangt til byggða eða afrétta. Engin leið er að geta sér til um magnið en í stórum gjóskugosum innan rekbeltisins hafa komið upp nokkrir rúmkílómetrar af gosefnum, þ.e. nokkrir milljarðar rúmmetra. Mikið af bræðsluvatni safnast fyrir þegar frá upphafi og það getur líka numið einhverjum rúmkílómetrum, t.d. ef gýs inni í sigdældinni. Það ræðst svo af því á hvaða vatnasviði í norðvesturjöklinum eða í Bárðarbungu gýs og svo jökulþykkt, hvað úr verður,“ segir Ari Trausti og bætir við að jökulhlaup geti steypst í átt að virkjanasvæðinu sem kennt er við Köldukvísl, Tungnaá og Þjórsá, í farveg Skjálfandafljóts og Jökulsár á Fjöllum, og jafnvel til Grímsvatna ef gýs nógu sunnarlega utan í eldfjallinu. Um áhrif á flug er ekki hægt að gefa sér neitt, en truflanir geta auðvitað orðið verulegar ef um stórgos er að ræða, er mat Ara Trausta sem ítrekar að sagan kenni það eitt að engu er hægt að spá, aðeins skoða möguleika.

„Hins vegar er fyllilega eðlilegt að horfa með áhyggjusvip á eldstöðvakerfið allt, efla enn eftirlit, rannsóknir og samstarf, eins og þegar er orðið, og ræða viðbrögð við nokkrum sviðsmyndum sem geta orðið að veruleika, ásamt skipulagningu viðbragðanna. Við höfum verið sæmilega heppin með eldvirknina, hvað stærð gosa varðar, allt frá Öskjugosinu og Sveina­gjáreldum árið 1875, en eldfjallasagan kennir að við stórum atburðum má búast á örfárra alda fresti og við það verðum við að búa,“ segir Ari Trausti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×