Innlent

Hallur vill fá bein Keikós heim

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hér má sjá þegar Keikó er settur í kví í Klettsvík í Vestmannaeyjum í september 1998.
Hér má sjá þegar Keikó er settur í kví í Klettsvík í Vestmannaeyjum í september 1998. Vísir/AFP
Hallur Hallsson, sem bar hitann og þungann af komu háhyrningsins Keikós til Íslands, vill fá bein háhyrningsins heim.

Hallur segir  að Keikó hafi verið dysjaður í Noregi og grjót hafi verið sett yfir hræið af honum. Það sé algjör skandall hvernig staðið hafi verið að greftrun hans og best væri ef bein Keikós yrðu flutt til Vestmannaeyja svo halda mætti minningu háhyrningsins á lofti. Það hafi hins vegar ekki fengið hljómgrunn.

Hallur Hallsson.
„Norðmenn báru fyrir sig einhverjar fáránlegar reglugerðir um sóttvarnir og eitthvað svoleiðis bull.  Svo hentu þeir yfir hann grjóti og þar hvílir hann,“ sagði Hallur í viðtali við Reykjavík síðdegis í gær.

Þar rifjaði hann upp sögu Keikós í tilefni af því að 16 ár voru liðin frá því að háhyrningurinn kom til landsins og settist að í Vestmannaeyjum.

Keikó var, eins og landsmenn þekkja, heimsfræg Hollywood-stjarna en hann gerði garðinn frægan í kvikmyndinni Free Willy. Myndin naut mikilla vinsælda þegar hún kom út árið 1993 en Keikó hafði verið fangaður við Íslandsstrendur á 8. áratugnum.

Það vakti mikla athygli um heim allan þegar hann var fluttur til Íslands en hér var hann í 5 ár eða  til ársins 2003. Þá synti hann þvert yfir Atlantshafið með háhyrningavörðu til Noregs þar sem hann svo bar sín bein í desember sama ár. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×