Innlent

Vill breytingar á greiðsluþátttöku sjúklinga

Hjörtur Hjartarson skrifar
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Heilbrigðisráðherra segist ekkert geta gert til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga fyrr en Pétursnefndin svokölluð, skilar af sér skýrslu. Hann segir óljóst hvenær það verður.

Eins og fram hefur komið í fréttum okkar undanfarið þurfa krabbameinssjúklingar á Íslandi oft að reiða fram háar fjárhæðir til að borga fyrir læknismeðferð. Dæmi var tekið um 27 karlmann sem greindist með krabbamein fyrir tveimur og hefur á þeim tíma þurft að borga eina og hálfa milljón vegna þessa úr eigin vasa.

Heilbrigðisráðherra segir að hann hafi áhyggjur af þessari þróun og í gangi sé vinna við að snúa henni við.

„Já, vissulega. Ég minnist þess að sambærileg umræða var í gangi á síðasta ári og þá setti ég af stað ákveðna vinnu sem Pétur H. Blöndal, þingmaður hefur veitt forystu. Því miður hafa verk dregist þar,“ segir KristjánÞór Júlíusson, heilbrigðisráðherra.



Það er ekki ofsögum sagt störf nefndarinnar hafi dregist. Hún lagðist reyndar í dvala en tók nýverið til starfa á ný. Henni er ætlað að taka greiðsluþátttökukerfi sjúklinga til gagngerrar endurskoðunar. Kristján segir kerfið ósanngjarnt gagnvart einstökum sjúklingahópum og það þurfi að leiðrétta.





Hvað viltu segja við þá krabbameinssjúklinga sem lesa þessa frétt og finnst þetta allt saman ganga alltof hægt?



„Mér finnst þetta ganga alltof hægt líka. En þetta er staðan. Ég get ekki gefið þeim nein önnur svör en að ég vonast til að nefndin ljúki sínum störfum sem fyrst. Fyrr en það gerist hef ég engin tök á því né nokkur annar til að breyta þessum veruleika.



„Hefurðu sett þessari nefnd einhver tímamörk?“



„Ég vonaðist til að hún lyki störfum nú á haustmánuðum en ég hef ekki fengið nein tímamörk frá henni,“ segir Kristján.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×