Innlent

Fengu 86 iPad spjaldtölvur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Þetta nemur einni spjaldtölvu á hverja leikskóladeild og eina eða tvær til viðbótar eftir stærð skóla.
Þetta nemur einni spjaldtölvu á hverja leikskóladeild og eina eða tvær til viðbótar eftir stærð skóla.
Leikskólastjórum í leikskólum Hafnarfjarðar voru afhentar alls 86 iPad spjaldtölvur í dag. Hver leikskóli fékk sem nemur einni spjaldtölvu á hverja leikskóladeild og eina eða tvær til viðbótar eftir stærð skóla. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnafjarðarbæ.

Er þetta hluti af átaki í tæknivæðingu hafnfirskra skóla sem er í fullum gangi. Fram kemur í tilkynningunni að það sé stefna fræðsluyfirvalda að innan þriggja ára verði hafnfirskir leik- og grunnskólar í fremstu röð hvað notkun upplýsingatækni í kennslu varðar.

Í fjárhagsáætlun ársins var gert ráð fyrir 45 milljónum króna til kaupa á tölvum, skjávörpum og uppsetningu þráðlauss nets í leik- og grunnskólum.

Auk þess voru 35 milljónir króna ætlaðar til þróunar og nýsköpunar, sem nýtist að stórum hluta til þessa verkefnis í formi námskeiða fyrir starfsfólk, verkefnastjórnunar, kennsluráðgjafar og fleira í þeim dúr.

Keyptir hafa verið 120 skjávarpar sem eru komnir upp í leik- og grunnskólum. Vantar enn nokkra skjávarpa til að fullnægja þörfinni. Þá er langt komin vinna við að setja upp þráðlaus net í alla leik- og grunnskóla bæjarins.

Skipaðir hafa verið tveir stýrihópar vegna tæknivæðingarinnar, einn fyrir leikskóla og annar fyrir grunnskóla. Munu þeir skila inn tillögum fljótlega um næstu skref og áherslur á komandi ári en það er í forgangi nýs meirihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að hraða tækjavæðingu og endurbótum á aðbúnaði í skólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×