Innlent

Stærsti gígurinn í Holuhrauni að ná 70 metra hæð og fer stækkandi

Afar spennandi landslagsmyndun er nú að gerast á Dyngjusandi vegna eldsumbrotanna. Stærstu gosgígarnir rísa sífellt hærra upp úr mikilli sléttu og nýtt lón og foss gætu myndast þegar hraunið girðir fyrir Jökulsá.

Eldgosið kom upp á mikilli sléttu milli Dyngjujökuls og Öskju í svokölluðu Holuhrauni, sem var lítt áberandi í landslaginu og að miklu leyti grafið ofan í sandinn.

Þá eru gömlu Holuhraunsgígarnir nú horfnir inn í stærri og tignarlegri gígaröð, stærsti gígurinn er að ná 70 metra hæð og fer stækkandi, og ljóst að þeir verða áberandi kennileiti í framtíðinni á þessum slóðum, munu gnæfa yfir og standa upp úr flatlendinu.

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir ekki síður spennandi að fylgjast með átökunum milli Jökulsár á Fjöllum og hraunsins og þeirri landslagsmyndun sem þar er í gangi.

Ármann telur hugsanlegt að hraunið nái að girða fyrir Jökulsá og að lón myndist þá fyrir innan.

Eftir því sem hækki í lóninu komi þó að því að áin finni sér leið yfir hraunið og jafnvel nýjan farveg ofan á hrauninu, með fossi. Hún gæti einnig fundið sér farveg í jaðri hraunsins og molað hraunjaðarinn niður.

Allt ræðst þetta þó að því hversu lengi gosið varir og hversu mikið efni það framleiðir

Ármann Höskuldsson líkti jarðeldunum á fyrsta degi við logandi Dreka. Ef sú líking er tekin lengra mætti kannski spyrja hvort hér sé að verða til Drekahraun og Drekaborgir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.