Innlent

Nauðsynlegt að bregðast við vaxandi launamun kynjanna

Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu
Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu
Kyndbundinn launamunur hefur aukist um þrjú prósentustig á síðustu misserum samkvæmt könnun Starfsmannafélags ríkisins. Framkvæmdastýra Jafnréttisstofu segir margt benda til þess að launamunur fari vaxandi á ný og kallar eftir aðgerðum af hálfu ríkis og atvinnurekenda.

Óleiðréttur kyndbundinn launamunur innan Starfsmannafélags ríkisins mældist 21 prósent í launakönnun sem Capacent gerði fyrir félagið. Þegar tekið hefur verið tillit til ýmissa þátta sem hafa áhrif á laun mælist launamunurinn 10 prósent en mældist sjö prósent í fyrra.

Karlmenn eru að meðaltali með um 470 þúsund krónur á mánuði en konur um 370 þúsund.

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, segir að þessi þróun komi ekki á óvart.

„Það hafa verið ýmsar vísbendingar í þessa átt. Það virðist vera að þegar efnahagsástandið fer að lagast þá vex launamunur kynjanna að nýju. Ein möguleg skýring er að það er búið að vera gera stofnanasamninga mjög víða í ríkisstofnunum og þeir hafa kannski skilað körlum meira en konum. Það væri fróðlegt að skoða það nánar,“ segir Kristín.

Árni Stefán Jónsson formaður SFR segir í samtali við Fréttablaðið í dag þörf á aðgerðum af hálfu ríkisins til að bregðast við þessari þróun. Kristín tekur undir það.



„Það er t.d. að innleiða jafnlaunastaðalinn og fylgja honum fast eftir. Það er að knýja á um að fyrirtæki og stofnanir geri úttekt á málum hjá sér. Við höfum dæmi þess að þar sem að menn fylgjast grannt með þessu þar gerist þetta ekki. Þá sjá menn að það er eitthvað skrýtið að gerast og reyna að leiðrétta,“ segir Kristín. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×