Innlent

Ráðist á dyravörð í miðbænum í nótt

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Daníel
Mikið var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Töluvert var um útköll vegna ölvunar og hávaða í heimahúsum og alls voru 79 mál bókuð hjá Fjarskiptamiðstöð Ríkislögreglustjóra.

Maður sem ók aftan á annan bíl í Austurbænum reyndi að stinga af, en sá sem keyrt var á kom í veg fyrir það ásamt vegfarendum. Ökumaðurinn reyndist undir áhrifum fíkniefna og var færður á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Þar var blóðsýni tekið og verður hann yfirheyrður í dag.

Veist var að dyraverði á skemmtistað í miðbænum og var hann sleginn og bitinn. Meiðsl hans voru minniháttar en árásarmaðurinn var handtekinn á staðnum. Klukkan rúmlega þrjú í nótt datt maður af hjóli í Vesturbænum og meiddist hann á höfði.

Einn bíll var stöðvaður fyrir of hraðan akstur í nótt, en honum var ekið á 114 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði var 50 kílómetrar. Var hann sviptur ökuréttindum til bráðarbirgða.

Þá fannst landabrúsi í bíl í Hafnarfirði sem farþegi bílsins sagðist eiga. Ökumaður bílsins var þó grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og var færður til blóðtöku.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir í Vesturbænum í nótt. Annar vegna gruns um ölvun við akstur og hinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×