Innlent

Bjarni hallast æ meira að því að fjölga seðlabankastjórum

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Skipunartími Más Guðmundssonar í embætti seðlabankastjóra rennur út 20. ágúst  næstkomandi, eða eftir átta daga. Fjármálaráðherra segir að ráðning nýs seðlabankastjóra hafi tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir, en hann vonast til þess að tilkynna um ráðninguna í þessari viku.

Nefnd sem mat hæfni umsækjenda taldi þrjá umsækjendur hæfasta til að gegna embættinu, þá Friðrik Má Baldursson, Ragnar Árnason og Má Guðmundsson.

Fjármálaráðherra skipaði í vor nefnd sérfræðinga um heildarendurskoðun laga um Seðlabanka Íslands en nefndin mun skila ráðherra frumvarpi til nýrra laga eigi síðar en 31. desember næstkomandi. Eitt af því sem nefndin þarf að taka afstöðu til er fjöldi seðlabankastjóra, en talsvert hefur verið rætt um hugsanlega fjölgun seðlabankastjóra úr einum í þrjá og er fjármálaráðherra jákvæður í garð slíkra breytinga.

„Ég hallast æ meira að því að það sé full ástæða til að hafa fleiri en einn seðlabankastjóra,” segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.

Hvers vegna?

„Meðal annars vegna þess hve verkefni Seðlabankans hafa stóraukist á undanförnum árum. Við erum í dag til dæmis með mjög eignamikið eignarhaldsfélag, við erum líka með gjaldeyrisvaraforða sem er margfaldur á stærð, miðað við það sem áður var,” segir Bjarni.

Samkvæmt núgildandi lögum um Seðlabanka Íslands er aðeins heimilt að skipa einn í embætti seðlabankastjóra og því þarf að koma til lagabreytinga, ef fjölga á seðlabankastjórum.

„Það er síst minni þörf í dag að hafa einn seðlabankastjóra, en þegar þrír sátu í bankanum.”

En er ágreiningur um það í ríkisstjórninni hvort það eigi að fjölga seðlabankastjórum?

„Við erum ekkert að ræða þetta á þessum tímapunkti. Þetta er þetta til sérstakrar skoðunar, ég er bara að segja að ég hallast að þessari skoðun í augnablikinu,” segir Bjarni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×