Innlent

Taldi næga sönnun til sakfellingar í nauðgunarmáli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn og stúlkan þekktust ekki fyrir umrætt kvöld.
Maðurinn og stúlkan þekktust ekki fyrir umrætt kvöld.
Einn af þremur dómurum í Héraðsdómi Norðurlands vestra sem sýknaði karlmann í júlí af ákæru um nauðgun á gistiheimili í október síðastliðnum var á öndverðum meiði við kollega sína. Taldi dómarinn lögfulla sönnun fyrir sekt ákærða.

Líkt og greint var frá á Vísi í dag var karlmaður sýknaður af ákæru um að hafa nauðgað stúlku sem var í félagsskap með þremur vinkonum sínum á gistiheimili nærri Blönduósi að loknum dansleik. Taldi dómurinn ósannað að maðurinn hefði af ásetningi notfært sér ölvun og svefndrunga stúlkunnar sem sakaði hann um nauðgun. Hélt maðurinn því fram að samræðið hefði verið með samþykki stúlkunnar. Hún sagðist hins vegar hafa talið mann sinn liggja sér við hlið en hún hafi verið ofurölvi eftir skemmtunina. Var hún ekki með ráði fyrr en vinkona hennar áttaði sig á því að maðurinn var í rúminu með henni, kveikti ljósin og lyfti af þeim sænginni.

Dómurinn var fjölskipaður en í honum sátu þau Halldór Halldórsson, Bogi Hjálmtýsson og Kolbrún Sævarsdóttir. Kolbrún er ósammála niðurstöðu meirihluta dómsins og telur fram komna lögfulla sönnun fyrir sekt ákærða.

„Telur hún að ákærða hafi, með hliðsjón af kringumstæðum í málinu, hlotið að vera ljóst að samþykki brotaþola til samræðis við hann hafi ekki legið fyrir og að ákærði hafi með því notfært sér að brotaþoli gat ekki spornað við samræðinu vegna ölvunar- og svefndrunga,“ eins og segir í niðurstöðum dómsins.

Því hafi átt að sakfella manninn fyrir brot sitt auk þess sem honum beri að greiða stúlkunni miskabætur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×