Innlent

Mótorhjólaslys á sunnanverðu Snæfellsnesi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. Vísir/Daníel
Tvennt slasaðist í mótorhjólaslysi á sunnanverðu Snæfellsnesi fyrir hádegi í dag. Tildrög slyssins eru óljós sem stendur en þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið send á vettvang.

Uppfært klukkan 11:46

Þyrla gæslunnar flutti fólkið frá Snæfellsnesi og lenti við Landspítalann í Fossvogi upp úr klukkan hálf tólf. Ástand annars þeirra er alvarlegt samkvæmt vakthafandi lækni á slysadeild.

Garðar í Staðarsveit á Snæfellsnesi.Vísir/Pjetur
Uppfært klukkan 12:25

Að sögn lögreglumanns á Snæfellsnesi var um karl og konu að ræða, erlenda ferðamenn um fimmtugt. Voru þau á ferð við bóndabýlið Bláfeld í Staðarsveit. Svo virðist sem vindkviða hafi orðið til þess að fólkið fór útaf veginum en hvasst var á Snæfellsnesi í morgun.

Samkvæmt lögreglumanni sem kom á vettvang var konan umtalsvert meira slösuð en maðurinn þó hann hefði einnig kennt sér meins. Konan var hins vegar allan tímann við meðvitund á meðan beðið var eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Uppfært klukkan 15:36

Við komuna á Landspítalann var konan í alvarlegu ástandi, með innvortis blæðingar og var lögð inn á gjörgæslu. Læknir á vakt sagði hana vera í nauðsynlegri skurðaðgerð. Ástand mannsins var stöðugt en talið er að hann hafi brotnað á hálsi.

Uppfært klukkan 21:45

Ferðamennirnir, sem eru hollenskir, eru enn á Landspítalanum í Fossvogi. Líðan konunnar er stöðug og er hún á gjörgæslu. Ekki er búist við að hún þurfi á frekari skurðaðgerðum að halda. Vakthafandi læknir á gjörgæslu sagði manninn aldrei hafa komið þangað inn en að hann hvíldist þó enn á annarri deild á spítalanum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×