Innlent

Stærsta hvalasýning í Evrópu í fullum undirbúningi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/Vilhelm
1.700 fermetra hvalasýning, sú stærsta sinnar tegundar í Evrópu, verður opnuð í húsnæði við Fiskislóð úti á Granda á næstunni.

Þar verða meðal annars til sýnis líkön af tuttugu og þremur hvölum í fullri stærð sem allir lifa við Íslandssstrendur. Hvalslíkönin koma frá Kína og þurfti 18 fjörutíu feta gáma til að flytja þau til landsins. Þau eru af öllum stærðum og gerðum og vega allt frá 25 kílóum upp í um tvö tonn.

Það eru frumkvöðullinn Hörður Bender og sjóðurinn Icelandic Tourism Fund sem eiga veg og vanda að uppsetningu safnsins, en sjóðurinn er framtakssjóður í rekstri Landsbréfa sem fjárfestir í uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu.  Eigendur ITF I eru Icelandair Group, Landsbanki Íslands og sjö af stærstu lífeyrissjóðum landsins.

Hörður sagði í samtali við fréttir Stöðvar 2 fyrr í vor verkefnið vera afar kostnaðarsamt en hann er bjartsýnn á að það eigi eftir að vekja mikla athygli, bæði hjá landsmönnum sem og ferðamönnum, í ljósi áhuga ferðamanna á hvalaskoðunarferðum úti fyrir ströndum Íslands.

Vísir/Vilhelm
Vísir/Vilhelm
Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×