Innlent

Kaupmannahöfn vinsælasti áfangastaður Íslendinga

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gamla höfðuborgin er vinsælasti áfangastaður íslenskra heimshornaflakkara.
Gamla höfðuborgin er vinsælasti áfangastaður íslenskra heimshornaflakkara. VÍSIR/GETTY
Íslenskir flugfarþegar lögðu leið sína oftast til Kaupmannahafnar í nýliðnum júlímánuði ef marka má talningu vefsíðunnar Túristi.is.

Lundúnir hafa lengi verið sú borg sem Íslendingar sækja mest og lætur nærri að fjórða hver vél í Keflavík haldi til bresku höfuðborgarinnar yfir vetrarmánuðina.

Umferðin þangað er þannig mun meiri en til annarra borga heimsins en á sumrin fækkar ferðunum til Lundúna á meðan þeim fjölgar á flesta aðra áfangastaði. Þá bætast líka fleiri flugvellir við leiðakerfi flugfélaganna hér á landi.

Kaupmannahöfn er alla jafna sú borg sem næst oftast er flogið til en í júlí áttu London og danska borgin sætaskipti og var gamla höfuðborgin því vinsælasti áfangastaðurinn í liðnum mánuði sem fyrr segir.

Ferðunum til Parísar og New York fjölgar töluvert yfir háannatímann í ferðaþjónustunni og borgirnar tvær skjótast þá upp fyrir Osló á listanum yfir þá staði sem oftast er flogið til frá Keflavíkurflugvelli eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan.

Alls var boðið upp á áætlunarflug til fimmtíu og tveggja borga í júlí en leiguflug á vegum ferðaskrifstofa er ekki tekið með í útreikningum Túrista.

Vægi vinsælustu áfangastaðanna í júlí í brottförum talið:

  1. Kaupmannahöfn: 8,7%
  2. London: 8,2%
  3. París: 6,9%
  4. New York: 6,3%
  5. Osló: 5,9%
  6. Boston: 5,1%
  7. Amsterdam: 4,4%
  8. Stokkhólmur: 3,5%
  9. Berlín: 3%
  10. Frankfurt: 2,5%



Fleiri fréttir

Sjá meira


×