Lífið

„Ekki láta aðra segja þér hvernig þú átt að líta út“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Heiða í faðmi fjölskyldunnar.
Heiða í faðmi fjölskyldunnar. Vísir/Arnþór
Bjarnheiður Hannesdóttir, eða Heiða eins og hún er ávallt kölluð, fékk hjartastopp í desember árið 2012.

Hjartað hennar var stopp í tuttugu mínútur. Henni var vart hugað líf en hún barðist fyrir tilvist sinni á þessari jörð og hafði betur.

Hjartastoppið olli miklum heilaskaða og er Heiða algjörlega ósjálfbjarga í dag. Hún getur lítið talað, sér nánast ekki neitt en ástæðu hjartastoppsins má rekja til átröskunar sem hún hafði glímt við frá átján ára aldri.

Vegna erfiðleika með tal nýtur hún stuðnings móður sinnar, Halldóru Lúðvíksdóttur, eiginmanns síns, Snorra Hreiðarssonar, og vinkonu sinnar, Sigrúnar Lilju Guðjónsdóttur, við að segja sína sögu sem víti til varnaðar fyrir aðra. Heiða prýðir forsíðu helgarblaðs Fréttablaðsins.

Var ekki hugað líf

Heiða fór í hjartastopp á laugardegi og var flutt á gjörgæslu Landspítalans í Fossvogi. Þar var heilinn á henni kældur niður í 34°C til að vernda hann fyrir skemmdum og henni gefin svefnlyf. Á mánudagsmorgni var hætt að gefa henni svefnlyf og fjölskyldunni sagt að hún ætti að ranka við sér í hádeginu.

„Svo leið tíminn. Klukkan fimm var haldinn fjölskyldufundur með læknunum. Hún var ekki vöknuð og sýndi engin viðbrögð. Það var ekki gott. Læknarnir gáfu okkur 72 tíma og sögðu að ef hún vaknaði ekki innan þess tíma myndi hún ekki vakna,“ segir Snorri. Á föstudeginum var síðan slökkt á öndunarvélinni.

„Þá var haldin bænastund við rúmið hennar og okkur sagt að hún yrði ekki lífguð við ef hún myndi ekki anda sjálf,“ segir Snorri. Heiða andaði sjálf og hafði gert það frá því hún var flutt á gjörgæsludeild. Þaðan var hún flutt á hjartadeild en læknar gáfu fjölskyldunni litla von og sögðu það nánast hreint út að næsti viðkomustaður Heiðu yrði líknardeild þar sem hún myndi kveðja þennan heim.

„Hún var lögð inn á hjartadeild á Þorláksmessu og við spiluðum uppáhaldslögin hennar allan sólarhringinn. Eftir nokkra daga byrjaði hún að syngja með, fyrst með Snorra. Hún raulaði aðeins í fyrstu og síðan ágerðist þetta og hún var farin að syngja þó nokkuð með honum,“ segir móðir hennar.

„Síðan fór hún að hreyfa sig. Hún komst í raun og veru ekki almennilega til meðvitundar fyrr en þremur til fjórum vikum eftir slysið en hún fór að tala við mig, tóma steypu. Seinna fengum við að vita að hún upplifði fullt af hlutum í dáinu,“ segir Snorri.

„Ég man það allt,“ bætir Heiða við.

„Eitt sinn sagði ég við hana að ég þyrfti að fara í vinnuna. „Hvar ertu að vinna?“ spurði hún mig. Ég svaraði að ég væri að vinna í Hafnarfirði. „Æi, það er svo langt fyrir þig að keyra,“ svaraði hún með lokuð augun. Þá fattaði ég að hún væri einhvers staðar annars staðar þannig að ég spurði hana hvar við værum. „Við búum á Akureyri,“ svaraði hún. Eðlilega fannst henni langt fyrir mig að keyra í vinnuna,“ segir Snorri og Heiða skellir upp úr.

„Hún var líka á Spáni þar sem maður nokkur sérsmíðaði fyrir hana hjólastól. Það var nóg að gera hjá henni. Á meðan við vorum að stumra yfir henni og farast úr áhyggjum var hún bara á Spáni,“ segir Snorri og Heiða skellihlær.

„Við höfum hlegið mikið að þessu. Hún var fljót að setja þetta upp sem grín,“ bætir móðir hennar við.

Nei er ekki til

Því næst lá leið Heiðu á endurhæfingardeild Landspítala á Grensási. Þar dvaldi hún í tæpt ár og var útskrifuð í desember í fyrra. Hún segir gott að vera komin heim í faðm fjölskyldunnar en móðir hennar hætti að vinna til að geta hugsað um hana alla virka daga á meðan Snorri er í vinnunni. Hann er sjálfstætt starfandi múrari og þegar vinnudeginum lýkur tekur hann við umönnunarhlutverkinu.

„Þessi tvö eru hetjur,“ segir Sigrún Lilja og bendir blaðamanni á að Snorri sjái nánast alfarið um að farða sína heittelskuðu og ku hann vera orðinn nokkuð lunkinn með förðunarburstana.

„Ef ég er að fara að mála hana og Snorri kemur heim vill hún miklu frekar að hann máli sig. Ég veit ekki hve oft ég hef heyrt: „Hvernig stendur á því að þú kannt ekki að mála, mamma? Snorri gerir þetta sko miklu betur en þú,““ segir móðir Heiðu og brosir.

„Sigrún er búin að kenna mér mikið. Og við fáum hana til að sjá um þetta þegar mikið liggur við. En mér finnst það samt ekkert mikið betra en það sem ég geri,“ segir Snorri og hlær.

„Ég vil hafa hana ómálaða. Hún er svo falleg ómáluð. En hún vill það ekki. Við verðum að leyfa henni að vera hún sjálf,“ bætir hann við.

„Hún myndi ekki gefa okkur séns á öðru, Snorri minn,“ skýtur móðir hennar inn í.

„Auðvitað getum við sagt nei en það er ekki í boði,“ segir Snorri og móðir Heiðu verður sposk á svip.

„Við fengjum ekki frið til þess. Hún tekur ekki nei sem svar.“

„Nei er ekki til,“ bætir Heiða við.

Börn Heiðu og Snorra á sjö ára afmælisdegi Hannesar sem er sonur Heiðu og uppeldissonur Snorra.Mynd/úr einkasafni
Horfir á lífið mikilvægari augum

Það er mikið hlegið á heimili fjölskyldunnar í Kópavogi sem Heiða hefur innréttað af stakri smekkmennsku. Þótt það taki á að rifja upp atburði síðustu tæpra tveggja ára er alltaf stutt í gleðina og jákvæðnina á þessum bæ.

„Það er ekkert annað í boði en gleði. En ef við tölum um hlutina eins og þeir eru er þetta auðvitað álag fyrir börnin. Það er álag að hafa mömmu svona heima af því að það er svo margt breytt. Þau leita síður til hennar því hún er lengi að tala og krakkar eru eins og þeir eru, frekar óþolinmóðir. Jafnframt er mjög gott að hafa hana heima. Það er ákveðið öryggi að vita af henni hér frekar en einhvers staðar annars staðar. Það sem Heiða er búin að gera sér grein fyrir er að hún gerir svo mikið þótt hún geti ekki gert neitt. Hún er til staðar og það er það sem hún getur gert fyrir okkur og börnin. Ef hún væri ekki sterk og dugleg og ef hún væri þunglynd væri allt í rugli hér. Þótt það sé stundum erfitt þá verðum við að horfa á það jákvæða,“ segir Snorri.

Heiða er full þakklætis þegar hún rifjar upp síðustu mánuði og er henni sérstaklega minnisstætt þegar vinkonur hennar og fjölskyldumeðlimir stofnuðu hóp, sem síðar var kallaður Næturvaktirnar.

„Þessar stelpur skiptust á að sitja með henni allar nætur á hjartadeild því Heiða sá verr þá en hún sér í dag og var hrædd við að vera ein. Þær stofnuðu meira að segja Facebook-hóp og vaktaplan. Ekki aðeins Heiða, heldur við öll, erum þeim ævinlega þakklát,“ segir móðir Heiðu og bætir við að hópurinn hafi síðar tekið sér nafnið Kvöldvaktirnar og setið með Heiðu öll kvöld á Grensási í marga mánuði.

Aðspurð um lífssýnina segir Heiða hana gjörbreytta.

„Ó, já. Það er allt breytt. Ég horfi á líf mitt með mikilvægari augum í dag,“ segir Heiða.

„Í dag er hún að átta sig á þessu öllu saman og því fylgir auðvitað mikil eftirsjá varðandi hvernig hún lifði. En eins og hún segir svo oft sjálf: Þetta er búið. Við getum ekkert í þessu gert núna. Það eina sem við getum gert er að halda áfram,“ segir Snorri.

„Og vera jákvæð. Ég er mjög jákvæð,“ bætir Heiða við. Allir við borðið eru sammála um að leitin sé að öðrum eins baráttujaxl eins og Heiðu.

„Hún er langsterkust af okkur öllum. Það hefur eiginlega ekki gerst síðastliðin tvö ár að hún hafi verið það slæm andlega að hún hafi ekki viljað fara fram úr,“ segir Snorri.

„Það er ótrúlegt hvað hún er búin að standa sig vel í þessari stöðu. Í alla þessa mánuði er hún búin að vakna á morgnana, drífa sig fram úr, jafnvel svefnlaus, og staðráðin í því að fara á æfingu. Þessi kraftur – að geta hlegið að þessum aðstæðum er aðdáunarverður,“ segir móðir hennar.

„Það hefði verið svo auðvelt fyrir hana að leggjast á hina hliðina á hverjum morgni og gleypa svefntöflur til að halda áfram að sofa,“ segir Snorri.

„Ekki ég,“ bætir Heiða við.

„Ég held að enginn annar hefði lifað þetta af. Hún er baráttukona og barðist til að geta verið áfram hér með fólkinu sínu,“ segir Sigrún Lilja.

Aðspurð hvort hún hafi einhver skilaboð til fólks sem glímir við átröskun af einhverju tagi stendur ekki á svörunum hjá Heiðu.

„Útlitið er ekki neitt á við að vera heilbrigður. Ekki láta aðra segja þér hvernig þú átt að líta út. Hugsaðu um heilsuna. Ég gerði það ekki.“

Styrktarsíða Bjarnheiðar á Facebook

Styrktarsjóður Heiðu Hannesar á hlaupastyrkur.is


Tengdar fréttir

Í hjartastopp fyrir framan fjölskylduna

Bjarnheiður Hannesdóttir lenti í hjartastoppi í tuttugu mínútur fyrir tæpum tveimur árum fyrir framan fjölskyldu sína. Henni var vart hugað líf en barðist fyrir tilvist sinni á þessari jörð.

Bindur vonir við stofnfrumumeðferð á Indlandi

Bjarnheiður Hannesdóttir er heilasködduð og ósjálfbjarga eftir að hún fór í hjartastopp í desember árið 2012. Draumur hennar er að komast í stofnfrumumeðferð á Indlandi og hefur Styrktarsjóður Heiðu Hannesar verið stofnaður til að safna fyrir meðferðinni.

Glímdi við átröskun frá átján ára aldri

Bjarnheiður Hannesdóttir fékk hjartastopp í desember árið 2012. Aðdrangandinn að hjartastoppinu var langur en Bjarnheiður hafði glímt við átröskun um árabil.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.