Lífið

Glímdi við átröskun frá átján ára aldri

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Heiða hélt að að kæmi ekkert fyrir sig.
Heiða hélt að að kæmi ekkert fyrir sig. Vísir/Arnþór
Bjarnheiður Hannesdóttir, eða Heiða eins og hún er ávallt kölluð, fékk hjartastopp í desember árið 2012.

Hjartað hennar var stopp í tuttugu mínútur. Henni var vart hugað líf en hún barðist fyrir tilvist sinni á þessari jörð og hafði betur.

Hjartastoppið olli miklum heilaskaða og er Heiða algjörlega ósjálfbjarga í dag. Vegna erfiðleika með tal nýtur hún stuðnings móður sinnar, Halldóru Lúðvíksdóttur, eiginmanns síns, Snorra Hreiðarssonar, og vinkonu sinnar, Sigrúnar Lilju Guðjónsdóttur, við að segja sína sögu sem víti til varnaðar fyrir aðra.

Heiða prýðir forsíðu helgarblaðs Fréttablaðsins.



Glímdi við átröskun frá 18 ára aldri

Aðdragandi hjartastoppsins var langur að sögn Heiðu. Hún segist hafa glímt við átröskun síðan hún var átján ára.

„Hún vill meina að það byrji þegar hún tók þátt í fegurðarsamkeppni og Ungfrú Ísland í kjölfarið. Þá var áhersla lögð á að leggja hart að sér til að líta vel út,“ segir Snorri.

„Og grennast,“ bætir Heiða við.

„Þú kannt Ungfrú Ísland ekki góða sögu?“ spyr Snorri.

„Nei,“ segir Heiða.

„Hún fór í mótþróa við keppnina,“ segir Snorri.

„Ég mætti með nammi á æfingar,“ segir Heiða.

„Já, og gerði ekki það sem henni var sagt að gera,“ bætir Snorri við.

„Eins og ég er,“ segir Heiða og brosir.

„Já, hún fer sínar eigin leiðir,“ segir Snorri.

Nokkrum árum eftir þátttökuna í Ungfrú Ísland, í kringum árin 2003-4, byrjaði Heiða að nota brennslutöflur þegar hún var í líkamsrækt, með hléum þó. Um það leyti sem hún kynntist Snorra árið 2005 fór Heiða að finna fyrir ristilsvandamálum.

„Hún hafði stundum ekki hægðir í tíu daga. En hún breytti aldrei um lífsstíl. Hún hugsaði um líkamann sinn og vildi ekki þyngjast. Hún vildi vera flott og vera í þyngd sem einhverjar staðalímyndir segja að maður eigi að vera í. Svo ágerðist þetta. Hún fór að taka inn dropa sem heita Laxoberal til að hjálpa henni að hafa hægðir svo hún stíflaðist ekki. Hún byrjaði á þessu lyfi um 2005-6. Hún gat alltaf leitað í þessa dropa sem hjálpuðu henni en hún breytti engu öðru. Svo þurfti hún alltaf að taka aðeins meira af dropunum sem endaði á því að hún var farin að taka þvílíkt magn af þeim. Droparnir héldu henni gangandi,“ segir Snorri.

Ristillinn fjarlægður

Árið 2008 flutti fjölskyldan til Barcelona þar sem Heiða stundaði nám í innanhúsarkitektúr. Heiða er ættuð úr Keflavík og fékk fljótt áhuga á tísku og hönnun. Hún var aðeins tíu ára þegar hún byrjaði að vinna í tískufataverslun foreldra sinna og segir móðir hennar að hún hafi ávallt verið mjög dugleg og áræðin.

Ári eftir að fjölskyldan flutti til Spánar lamaðist ristillinn og hann var fjarlægður.

„Við vildum að hún tæki sér hlé frá námi og jafnaði sig eftir aðgerðina en hún hélt nú ekki. Hún reifst við lækna sem ráðlögðu henni að hvíla sig og hlustaði ekki á okkur fjölskylduna. Það fór þannig að við fórum aftur út og ég þurfti að hjálpa henni með töskurnar í skólann. Hún ætlaði að klára námið fyrir fjölskylduna og gekk mjög nærri sér. En við vorum glöð að ristillinn var farinn. Við héldum að það væri vandamálið,“ segir Snorri.

„Þetta var léttir,“ segir Heiða og móðir hennar bætir við:

„Við héldum að hún væri orðin heil heilsu.“

Stuttu síðar dundi annað áfall yfir Heiðu þegar það var ráðist á hana í Barcelona.

„Hún fór út að skemmta sér með vinkonum sínum og það var ráðist á hana. Hún kom heim öll marin og blá. Eftir þessa árás gerðist eitthvað hjá henni. Hún missti sjónar á öllu,“ segir Snorri. Þau Heiða skildu í kjölfarið og lýsa þau tímanum sem fylgdi á eftir sem skelfilegum.

„Hún tók brennslutöflur því það var svo mikið koffín í þeim. Hún sagðist þurfa þær til að halda sér vakandi til að vinna í skólaverkefnum. Hún leit ekki vel út. Hún týndist í eitt og hálft ár. Hún var ekki Heiða. Hún var einhver önnur Heiða,“ segir Snorri en margir muna eflaust eftir Heiðu sem konunni sem stal senunni á Edduverðlaununum árið 2011 í hlébarðasamfestingi.

Á þessu tímabili fóru þær Heiða og Sigrún Lilja saman til Los Angeles í frí og Sigrún Lilja hafði miklar áhyggjur af vinkonu sinni.

„Hún var eins og beinagrind. Ég bað hana að gera það fyrir mig að hjálpa sjálfri sér fyrir börnin sín. Stuttu síðar byrjuðu þau Snorri aftur saman og Heiða byrjaði að líta mun betur út,“ segir Sigrún Lilja. Starfsframi Heiðu var líka blómstrandi rétt fyrir slysið en hún starfaði sem fasteignasali á Höfuðborg og einnig vann hún við innanhúsráðgjöf.

Snorri og Heiða fyrir slysið.Mynd/úr einkasafni
„Ég var viss um að það kæmi ekkert fyrir mig“

Það sem fjölskyldan vissi ekki, og Heiða sjálf gerði sér ekki grein fyrir, var að Heiða var að glíma við tegund lotugræðgi þar sem hún hreinsaði líkamann með lyfjum í staðinn fyrir að losa sig við mat með uppköstum. Eftir að ristillinn var fjarlægður notaði hún þvagræsilyf til að hreinsa líkamann sem orsakaði kalíumskort, eða hypoklemiu, í blóðinu.

„Hún tók kalíum í töfluformi, að læknisráði, hér heima og ég hélt að það væri það eina sem hún væri að taka. En hún var líka að taka þvagræsilyf sem ég vissi ekkert um,“ segir Snorri. Eðlilegt magn kalíums í blóðinu er 3,5 til 5,0 mEq/L en Heiða mældist oft mun lægri.

„Ef þú ferð undir tvo áttu ekki að vera á lífi,“ segir Sigrún Lilja. Móðir Heiðu fór nokkrum sinnum með hana á gjörgæslu vegna skortsins.

„Einu sinni var hún með 1,7. Yfirlæknirinn sagði við mig að hann hefði aldrei séð lifandi sjúkling með svona lágt magn af kalíumi í blóðinu. Hann sagði að ég yrði að gera mér grein fyrir því að ef hún lenti í hjartastoppi væri mjög ólíklegt að við næðum henni til baka,“ segir hún.

Þó að Heiða hafi stundum verið nær dauða en lífi eftir þessar heimsóknir á gjörgæsluna hringdu engar viðvörunarbjöllur í hausnum á henni og hún fann sig aldrei knúna til að vinna í sínum málum.

„Aldrei. Ég var viss um að það kæmi ekkert fyrir mig,“ segir hún.

Langaði til að segja frá

Bæði Sigrúnu Lilju og Snorra grunaði að eitthvað væri að en áttuðu sig ekki á hvað það væri.

„Þegar við fluttum til Barcelona var hún orðin mjög grönn og þá fóru nokkrir að pikka í mig og spyrja mig hvort hún væri með anorexíu. Ég fór aðeins að fylgjast með henni og hugsaði að hún hlyti þá að vera að æla. Ég gat aldrei staðið hana að því. En hún var alltaf á klósettinu að losa þetta öðruvísi,“ segir Snorri.

„Ég fylgdist vel með henni. Hún var ekki að æla, hún sleppti ekki máltíð. Það tengdi ég við átröskun þannig að ég hugsaði að hún gæti ekki verið að glíma við það,“ bætir Sigrún Lilja við.

„Hún er bara síðustu mánuði að vakna og fatta þetta. Daginn áður en hún fékk hjartastopp fórum við til heimilislæknis og hann sagði að hún þyrfti að fá kalíum í æð á sjúkrahúsi. Hún þverneitaði og vildi fá það í fljótandi formi og innbyrða það sjálf heima,“ segir Snorri og Heiða fékk ósk sína uppfyllta.

„Ég grátbað hana um að fara upp á spítala,“ segir móðir hennar þegar hún rifjar upp þennan tíma.

Tíu dögum fyrir slysið fékk hún sterk þvagræsilyf uppáskrifuð af kvensjúkdómalækni.

„Mér fannst ég svo bjúguð á fingrum, andliti og fótum,“ segir Heiða um ástæðuna fyrir því að hún bað um lyfin.

„Hún vildi halda sér í þyngd. Svona er þessi sjúkdómur. Þetta er óvæginn sjúkdómur. Margir geta eflaust lifað með honum í mörg ár og haldið sér réttum megin við strikið en hún staldraði aldrei við. Svo endar þetta svona,“ segir Snorri.

Heiða faldi pillurnar fyrir fjölskyldu og vinum.

„Ég spurði hana margoft hvort hún væri að taka einhver brennslulyf. Ég treysti og trúði því sem hún sagði og reif svo kjaft við læknana trekk í trekk og sagði þeim að hún væri ekki að taka inn nein lyf,“ segir móðir Heiðu. En af hverju sagði Heiða ekki frá?

„Ég var ekki tilbúin til þess,“ segir hún. En langaði hana til þess?

„Já.“

Styrktarsíða Bjarnheiðar á Facebook

Styrktarsjóður Heiðu Hannesar á hlaupastyrkur.is


Tengdar fréttir

„Ekki láta aðra segja þér hvernig þú átt að líta út“

Bjarnheiður Hannesdóttir fór í hjartastopp í tuttugu mínútur árið 2012. Hún glímdi við átröskun um árabil og hefur þau skilaboð til annarra sem glíma við sjúkdóminn að útlitið sé ekki neitt á við að vera heilbrigður.

Í hjartastopp fyrir framan fjölskylduna

Bjarnheiður Hannesdóttir lenti í hjartastoppi í tuttugu mínútur fyrir tæpum tveimur árum fyrir framan fjölskyldu sína. Henni var vart hugað líf en barðist fyrir tilvist sinni á þessari jörð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×