Innlent

700 skjálftar frá miðnætti

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Um 700 jarðskjálftar hafa mælst við Bárðarbungu frá því á miðnætti. Jarðeðlisfræðingur segir um sé að ræða stærstu jarðskjálftahrinu við Bárðarbungu í lengri tíma. Ekki sé útilokað að hrinan endi með eldgosi.

Áframhaldandi virkni hefur verið við Bárðarbungu í norðvestanverðum Vatnajölkli í dag og hafa um 700 jarðskjálftar mælst frá því á miðnætti samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Þrír sterkir skjálftar mældust í nótt, sá sterkasti 3,5 stig á stærð. Upptök jarðskjálftanna eru á um tíu kílómetra dýpi.

Vísindamannaráð almannavarna fundaði í morgun vegna skjálftahrinunnar og telja vísindamenn að virknin orsakist af innskotavirkni kviku í jarðskorpunni. Engin merki sjást enn um að gos sé hafið í Bárðarbungu en ekki er útilokað að skjálftavirknin leiði til eldgoss.

„Við höfum aldrei vaktað þetta svæði eins vel og nú. Við sjáum það sem er í gangi núna miklu betur heldur en það sem hefur gerst áður. Svona innskot gerast reglulega á þessu svæði en þetta er stærsta hrina sem hefur komið mjög lengi,“ segir Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Eru áhyggjur um að það gæti komið gos í Bárðarbungu?

„Við gerum ráð fyrir því að það gæti komið gos í Bárðarbungu. Ég tel það ekki líklegasta möguleikann en það er möguleiki,“ segir Benedikt.

Embætti ríkislögreglustjóra lýsti í gær yfir óvissustigi á Bárðarbungu vegna skjálftahrinunar og sendi Veðurstofan einnig út viðvörun til alþjóðaflugsins vegna þeirrar óvissu sem nú er á svæðinu. Benedikt á ekki von á því að gos hefjist á allra næstu dögum.

„Það sem er líklegast er að þetta sé byrjunin á atburðarrás sem á eftir að teygjast mánuði eða jafnvel ár, áratugi. Þetta er kannski hluti af atburðarrás sem hefur verið í gangi áður og við höfum séð aukna virkni í Bárðarbungu á síðustu áratugum.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.