Innlent

Stærsti skjálftinn til þessa

Frá eldgosinu í Grímsvötnum árið 2011 sem er á sama kvikusvæði og Bárðarbunga.
Frá eldgosinu í Grímsvötnum árið 2011 sem er á sama kvikusvæði og Bárðarbunga. Vísir/EGILL
Jarðskjálfti upp á að minnsta kosti 3,8 stig varð í grennd við Kistufell í norð-vestanverðum Vatnajökli í nótt og er þetta sterkasti skjálftinn sem mælst hefur í hrinunni, sem hófst um helgina. Hann fannst meðal annars á Akureyri.

Ekki sjást þó merki um að kvika sé að leiðinni upp á yfirborðið. Frá miðnætti til klukkan sex í morgun hafa á þriðja hundrað skjálftar mælst við Bárðarbungu og Kistufell, þannig að hrinan er síst að hjaðna.

Jarðvísindamenn flugu undir kvöld í gær yfir svæðið í þyrlu Gæslunnar, til að meta aðstæður. Síðustu sjö ár hefur virkni í Bárðarbungu aukist jafnt og þétt.

Í kjölfar gossins í Grímsvötnum árið 2011 datt virknin tímabundið niður, en fór fljótlega að aukast aftur. Skjálftahrina varð á svæðinu í maí í vor, en hún var mun minni en hrinan núna er þegar orðin.

Óvissuástand er enn í gildi og útiloka Almannavarnir ekki að atburðarrásin  geti leitt til eldgoss undir jöklinum, með tilheyrandi flóðum. Þessvegna eru nokkrir hálendisvegir enn lokaðir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.