Tilgangur sjóðsins er að safna fyrir stofnfrumumeðferð á Indlandi fyrir Bjarnheiði Hannesdóttur, eða Heiðu eins og hún er ávallt kölluð. Heiða fékk hjartastopp í desember árið 2012 eftir áralanga baráttu við átröskun, eins og kom fram í helgarblaði Fréttablaðsins síðustu helgi.
Hjarta Heiðu var stopp í tuttugu mínútur og var henni vart hugað líf. Hún barðist fyrir tilvist sinni á þessari jörð og hafði betur en hjartastoppið olli miklum heilaskaða og er Heiða algjörlega ósjálfbjarga í dag.
Hópurinn sem hleypur í maraþoninu til styrktar Heiðu kallar sig #TeamHeiða en hlaupurum í hópnum fer stöðugt fjölgandi.

„Á meðal hlaupara er líka afi Heiðu sem er 86 ára gamall, tengdamóðir Heiðu sem er 71 árs og fer tíu kílómetra og mágkona Heiðu sem er komin 38 vikur á leið þannig að hér leggjast allir á eitt við að safna fyrir stelpuna okkar, svo hún megi fá draum sinn uppfylltan og fá þá allra bestu meðferð sem völ er á,“ bætir Sigrún Lilja við.
Hluti af hópnum hljóp fyrir stuttu saman frá Keflavík í Bláa Lónið og aðspurð segir Sigrún Lilja að það sé töluverð keppni í hópnum, svo mikil að ein endaði á að detta illa og brákast á hendi þegar hún var að líta aftur fyrir sig og athuga hvort það væri nokkur að færast nær í að taka fram úr sér.

Kostnaðurinn við stofnfrumumeðferðina sem Heiða hyggst sækja sér hleypur á mörgum milljónum og er mikill hugur í hlaupahópnum að gera enn betur en tvær milljónir.
,,Þrátt fyrri gott gengi erum við hvergi nærri hætt og munum ekki hætta að safna áheitum fyrr en lokað er fyrir áheitasöfnun á hlaupastyrkur.is.“
Styrktarsíða Bjarnheiðar á Facebook.
Hér er hægt að styrkja þá sem hlaupa fyrir Heiðu í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn.