Innlent

Bað um að verða sendiherra og fékk já

Randver Kári Randversson skrifar
Svavar Gestsson var formaður Alþýðubandalagsins frá 1980 til 1987. Hann var sendiherra í utanríkisþjónustunni frá 1999 til 2009.
Svavar Gestsson var formaður Alþýðubandalagsins frá 1980 til 1987. Hann var sendiherra í utanríkisþjónustunni frá 1999 til 2009. Vísir/Valli
Svavar Gestsson, fyrrverandi sendiherra og formaður Alþýðubandalagsins,  segir frá því í nýlegri Facebook-færslu hvernig skipun hans í stöðu sendiherra í utanríkisþjónustunni bar að. Þar kemur fram að á árinu 1998 hafi hann séð fram á að geta lokið þingferli sínum þegar fyrir lá að Alþýðubandalagið myndi ekki bjóða fram aftur og ljóst var að  hann færi hvorki í framboð fyrir Samfylkinguna né VG. Hann hafi þá farið fram á sendiherrastöðu þar sem hann taldi að komið væri að því að Alþýðubandalagsmaður yrði sendiherra.

 „Ég gekk svo á fund ráðamanna og sagði: Ég vil verða sendiherra. Þeir samþykktu það. Stjórnarandstaðan varð ánægð með það. VG af því að þau vildu ekki hafa mig í framboði fyrir Samfylkinguna. Samfylkingarmenn af því að þau vildu ekki hafa mig í framboði fyrir VG. Ég hafði séð að formenn annarra flokka höfðu verið skipaðir sendiherrar hvað eftir annað. Ég taldi að það væri kominn tími til að Alþýðubandalagsmaður, þekktur herstöðvaandstæðingur, yrði skipaður sendiherra. Það varð,“ skrifar Svavar.

Nokkur umræða hefur skapast um skipanir sendiherra í utanríkisþjónustunni í kjölfar þess að Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, skipaði þá Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, og Árna Þór Sigurðsson, þingmann Vinstri grænna, sem sendiherra í síðustu viku. Það er fyrsta sinn frá árinu 2008 sem stjórnmálamenn eru skipaðir í stöðu sendiherra.

Svavar var skipaður sendiherra frá 1. mars 1999 og varð aðalræðismaður Íslands í Winnipeg í Kanada. Hann var síðan sendiherra Íslands í Stokkhólmi frá árinu 2001 til 2005 og í Kaupmannahöfn frá 2005 til 2009.


Tengdar fréttir

Telur óþarfi að auglýsa sendiherrastöður

Frá árinu 2008 og fram að skipun þeirra Geirs H. Haarde og Árna Þórs Sigurðssonar komu allir þeir níu einstaklingar sem skipaðir voru í embætti sendiherra úr röðum starfsmanna utanríkisþjónustunnar.

Geir H. Haarde skipaður sendiherra

Þá var Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður og fyrrverandi formaður utanríkismálanefndar, einnig skipaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×