Innlent

Golfvöllurinn ekki mikið skemmdur eftir ökuníðinginn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Yfirheyrslur fara að hefjast yfir ökuníðingi, sem ógnaði lífi og limum fólks í gærkvöldi með ofsaakstri og var undir sterkum áhrifum fíkniefna. Hann á yfir sér kærur fyrir fjölmörg brot.

Hann var á stolnum sendibíl og endaði ökuferðina ofan í húsgrunni á svonefndum Lýsisreit í grennd við JL húsið við Hringbraut um ellefu leitið í gærkvöldi, þar sem bíllinn vó salt á háum kanti ofan í grunninum.

Áður hafði hann ekið á miklum hraða eftir gangstíg frá Gróttu og inn á golfvöllinn úti á Nesi, þar sem golfiðkendur áttu fótum fjör að launa. Áður voru vitni búin að láta lögreglu vita af manninum , en hann virti stöðvunarmerki lögreglumanna að vettugi og ók utan í tvo lögreglubíla, sem reyndu að hefta för hans.

Skyndilega beygði hann svo út af Eiðsgrandanum og ók í gegn um hlið á girðingu umhverfis grunninn, þar sem hann stöðvaðist loks og vó salt á háum kanti, eins og áður sagði, og þorði ekki út úr bílnum.

Þegar þar var komið sögu tóku að minnsta kosti fimm lögreglubílar þátt í eftirförinni. Lögregla kallaði á kranabíl, sem dró bílinn af kantinum og náðist ökumaðurinn  út og var þegar handtekinn.

Haukur Óskarsson, framkvæmdastjóri Nesklúbbsins og hans menn könnuðu ummerki á golfvellinum snemma í morgun.

„Hann virðist hafa farið töluverðan hring um völlinn en þetta eru ekki alvarlegar skemmdir við fyrstu sín. Við tókum stöðuna á þessu klukkan sex í morgun og þetta virðist hafa sloppið að mestu en vissulega markar hér og þar.“

En fólkið sem var þarna, var það ekki skelkað?

„Það var skelkað og átti á köflum fótum sínum fjör að launa. Þetta var óheppilegt og leiðinlegt en sem betur fer virðist hafa sloppið að mestu,“ sagði Haukur Óskarsson á Nesvellinum.

Líklegt er að mál ökuníðingsins fari fyrir dómstóla, fremur en það verði leyst með sektargreiðslum, en mildi þykir að allir, sem á vegi hans urðu, skuli hafa sloppið ómeiddir.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×