Innlent

Ný brú á Múlakvísl tekin í notkun

Atli Ísleifsson skrifar
Brúin yfir Múlakvísl eyðilagðist í miklu hlaupi þann 9. júlí 2011.
Brúin yfir Múlakvísl eyðilagðist í miklu hlaupi þann 9. júlí 2011. Mynd/Vegagerðin/G. Pétur Matthíasson
160 metra löng brú yfir Múlakvísl var formlega tekin í notkun í dag þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra klippti á borða með aðstoð Hreins Haraldssonar vegamálastjóra.

Í fréttatilkynningu frá Vegagerðinni segir að hlaup hafi orðið í Múlakvísl þann 9. júlí 2011 og eyðilagði þar með 130 metra langa brú sem byggð var árið 1990 og rauf þar með Hringveginn. „Samdægurs var hafist handa við undirbúning að smíði bráðbrigðabrúar en Vegagerðin á ávallt til reiðu efni í slíkar brýr. Á sjö dögum var byggð 156 m löng einbreið bráðabrigðabrú. Opnað var fyrir umferð á hádegi laugardaginn 16. júlí.

Nýja brúin sem nú er tekin í notkun er 162 metra löng eftirspennt bitabrú í sex höfum og 10 metrar að breidd. Nýr vegur er um 2,2 kílómetrar að lengd og er breidd hans átta metrar.

„Brúargólfið á nýju brúnni er 2 m hærra en var á eldri brú og lágpunktar eru hafðir í veginum sitthvoru megin brúar til þess að flóð af þeirri stærðargráðu sem varð í júlí 2011, taki ekki af brúna en rjúfi þess í stað veginn. Í austanverðum farveginum ofan brúar voru byggðir um 5,6 km langir varnargarðar upp með ánni, þar af er 2,5 km ógrjótvarinn bakgarður með 11 grjótvörðum leiðigörðum. Tilgangur þessara garða er að beina ánni undir brúna og varna miklu jarðvegsrofi. Auk þessa eru 2 grjótvarðir varnargarðar ofar til að verjast rofi á bakkanum sem er þar allt að 10 m hár og er eingöngu úr vikri frá Kötlu.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri þakkaði sérstaklega starfsmönnum Vegagerðarinnar sem komu að því að smíða bráðabrigðabrú á aðeins 7 dögum þegar mikið lá við. Hann þakkaði einnig verktökum Eykt og Þjótanda og undirverktökum þeirra og öllum sem komið hafa að smíði nýju brúarinnar. Þeir hafa unnið mjög gott verk, sagði Hreinn, og þar að auki mánuði á undan áætlun.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra að sama skapi þakkaði Vegagerðarfólki og vegamálastjóra fyrir hið ótrúlega afrek að smíða brú á 7 dögum, það bæri að þakka. Það er merki um það hvernig staðið er að hlutunum hjá Vegagerðinni, sagði Hanna Birna, og vitnaði til vegamálstjóra sem hafi lýst því þannig að Vegagerðin ætti alltaf efni á lager í svona brú og menn hafi gengið til lagers og hafist handa. Hún þakkaði einnig verktökum og öðrum þeim sem komið hafa að gerð nýju brúarinnar og óskaði heimamönnum til hamingju með mannvirkið. Sagði það nokkuð öðruvísi að opna mannvirki úti á landi en í Reykjavík þar sem öllu jafna hefðu ný mannvirki svo mikil áhrif á samfélagið og fólk úti á landi. Þetta þætti henni skemmtilegt verk og nú þegar mikið væri spurt um dagbókarfærslur hennar þá vildi hún óska þess að borðaklippingar væru fastur liður í dagbókinni,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×