Innlent

Opnunarhátið Hinsegin daga fer fram í kvöld

Randver Kári Randversson skrifar
Hinsegin Kórinn kemur fram í Hörpu í kvöld.
Hinsegin Kórinn kemur fram í Hörpu í kvöld.
Hinsegin dagar eru nú í fullum gangi í Reykjavík. Í kvöld fer fram opnunarhátíð Hinsegin ​í Hörpu. Húsið opnar klukkan 20:30 en dagskrá hefst stundvíslega klukkan 21.

Í fréttatilkynningu segir að í ár stígi stórskotalið listamanna á svið og þar megi nefna Pál Óskar, Siggu Beinteins, Hafstein Þórólfsson, Hinsegin kórinn og fleiri. Í ár kemur skemmtikrafturinn vinsæli Willam úr ​​RuPaul‘s Drag​ Rrace sérstaklega hingað til lands til að skemmta á opnunarhátíð Hinsegin daga. Miðasala á opnunarhátíðina er enn í fullum gangi í Kaupfélagi Hinsegin daga að Suðurgötu 3 og á www.harpa.is.

Í dag verður dagskráin fjölbreytt og skemmtileg en fyrri part dags verður umræða og fræðsla í fyrirrúmi. Í hádeginu standa Hinsegin dagar fyrir umræðufundinum Nekt, kynlíf og önnur tabú þar sem fjölmörgum áleitnum, en mikilvægum spurningum verður velt upp. Fundurinn hefst klukkan 12. Á sama stað klukkan 17 mun Kitty Anderson stofnandi Intersex Ísland halda fyrirlestur um reynslu sína af því að lifa sem Intersex einstaklingur á Íslandi. Kitty hélt afar áhrifaríka ræðu í lok sýningar heimildarmyndarinnar Intersexion í Bíó Paradís síðastliðið þriðjudagskvöld áður en hún svaraði spurningum áhorfenda.

Í gær fór fram vel sótt hinsegin leiðsögn um Grasagarð Reykjavíkur en um kvöldið breyttist Sundhöll Reykjavíkur í tónleikahöll þegar tónleikarnir Dívur og dýfur fór þar fram. Þau Felix Bergsson, Helga Möller, Elín Ey og Josefin Winther stigu á stokk á meðan sundkappar úr Íþróttafélaginu Styrmi sýndu dýfingalistir sínar af brettinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×