Innlent

Fann byssuna sína á safni á Húsavík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Byssan sem um ræðir í Hvalasafninu á Húsavík.
Byssan sem um ræðir í Hvalasafninu á Húsavík. Mynd/Einar Gíslason
Ólafur Gunnarsson, sjómaður á Akureyri, fullyrðir í samtali við Akureyri Vikublað að byssa sem hann hafi leigt árið 1980 en aldrei fengið greitt fyrir sé nú til sýnis á Hvalasafninu á Húsavík.

Ólafur telur að byssunni sem hann hafi leigt á sínum tíma hafi aldrei verið skilað heldur annarri byssu. Í heimsókn sinni á Hvalasafnið á dögunum hafi hann rekið augun í byssuna og komist að því, með því að skoða skrásetningarnúmer byssunnar, að byssan væri sín.

„Samkvæmt lögum er byssan þarna á mína ábyrgð, svo þannig er málið grafalvarlegt, þar sem þetta er virkt vopn,“ segir Ólafur við Akureyri Vikublað.

Einar Gíslason, framkvæmdastjóri Hvalasafnsins, staðfesti í samtali við Vísi að Ólafur hefði haft samband við safnið nýverið og spurst fyrir um byssuna.

„Byssan hefur verið hér frá því safnið opnaði í gamla Sláturhúsinu á Húsavík 2002. Byssan var gjöf til safnsins á sínum tíma og er hún í sýningunni okkar um hvalveiðar,“ segir Einar.

„Ef það leikur einhver vafi á eignarhaldi byssunnar þá munum við að sjálfsögðu kanna það strax.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×