Innlent

Vinir stofna minningarsjóð til heiðurs Ástu Stefánsdóttur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ásta Stefánsdóttir týndist í Fljótshlíð þann 10. júní.
Ásta Stefánsdóttir týndist í Fljótshlíð þann 10. júní.
Ástusjóður, til minningar um lögfræðinginn Ástu Stefánsdóttur sem fannst látin í Bleiksárgljúfri þann 15. júlí síðastliðinn, verður stofnaður af vinum hennar og fjölskyldu á föstudaginn næstkomandi.

Markmið sjóðsins er að vinna að hugðarefnum Ástu ásamt því að styrkja Landsbjörgu og björgunarsveitirnar um hinar dreifðu byggðir landsins er fram kemur í fréttatilkynningu.

Hugðarefni Ástu innan lögfræðinnar voru umhverfisréttur, refsiréttur, réttarfar og mannréttindalöggjöf en hún hafði einnig brennandi áhuga á jafnréttis- og menningarmálum.

„Gönguferðir og hollt líferni voru henni eðlislæg en hún greindist 25 ára með MS sjúkdóm sem vel tókst að meðhöndla – fyrir það var hún afar þakklát,“ segir í tilkynningunni en Ásta lést af slysförum í íslenskri náttúru langt um aldur fram. Hún var 35 ára að aldri.

Vinir hennar stofna Ástusjóð svo að áfram megi vinna að því sem var henni svo hugleikið og styrkja björgunarsveitirnar í þeirra óeigingjarna starfi sem fyrr segir. Vinir og fjölskylda Ástu vilja einnig með sjóðnum koma á framfæri ævarandi þakklæti vegna starfa björgunarsveita og lögreglu eftir hvarf hennar. Nánari upplýsingar má nálgast á vefnum www.astusjodur.is þegar nær dregur.


Tengdar fréttir

Leitað í Bleiksárgljúfri í dag

Reynt verður að minnka vatnsmagn fossins í Bleiksárgljúfri og verður hluti fossins stíflaður. Þá verður gljúfrið lýst upp og munu leitarmenn síga niður með gilbörmunum.

Staðfesta að líkið er af Ástu

Kennslanefnd ríkislögreglustjóra hefur staðfest að lík konu sem fannst síðastliðinn þriðjudag í Bleiksárgljúri hafi verið af Ástu Stefánsdóttur sem leitað hafði verið frá 10. júní síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×