Lífið

17 milljónir hafa safnast fyrir Suður-Súdan

Rúmar 17 milljónir hafa nú safnast í neyðarsöfnun UNICEF fyrir Suður-Súdan. Fullt hús var á styrktartónleikum UNICEF og Alvogen í Hörpu í gær en þar spiluðu Páll Óskar, Hjaltalín, Kaleó og Snorri Helgason.

Að sögn Stefáns Inga Stefánssonar, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi, er umfang neyðarinnar sem blasir við börnum í Suður-Súdan ógnvænlegt. Stefán Ingi sinnir nú hjálparstarfi í Suður-Súdan þar sem UNICEF leggur nótt við dag til að veita sem flestum börnum lífsnauðsynlega hjálp. Í hverri viku eykst fjöldi þeirra sem deyr vegna vannæringar og sjúkdóma og börnum sem flýja undan vopnuðum átökum fjölgar dag frá degi.

Hægt er að leggja söfnun UNICEF lið með því að senda sms-ið BARN í 1900 og styrkja söfnunina um 1.900 krónur. Einnig er hægt að leggja inn á sérstakan söfnunarreikning: 701-26-102040 (kt. 481203-2950).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×