Innlent

105 ára gamalt hús skemmt í skjóli nætur

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Elías Jónatansson
Gríðarlegar skemmdir voru unnar á friðuðu húsi í Bolungarvík í nótt. Var grafa notuð til að stórskemma húsið sem byggt var árið 1909. Á vef BB segir að húsið hafi ekki verið íbúðarhæft og enginn hafi verið í húsinu.

Lögreglan leitar nú að þeim sem skemmdi húsið og búið er að rannsaka tvær af þremur gröfum bæjarins sem koma til greina. Líklega er húsið ónýtt.

Elías Jónatansson, bæjarstjóri Bolungarvíkur, segir í samtali við Vísi að byggingarfulltrúi skoði húsið, sem er í eigu bæjarins.

„Hann er þessa stundina að skoða og meta. Líka upp á hættu að veggirnir og skorsteinninn séu að falla. Það er ekki gott að fólk, né börn fari inn í húsið. Það er verið að skoða til hvaða aðgerða er hægt að grípa til að draga úr hættu.“

„Þetta var tilkynnt til lögreglu og þeir eru að vinna í málinu. Ég held að þeir verði ekki lengi að komast að því. Þetta er ekki stórt samfélag,“ segir Elías.

Mynd/Elías Jónatansson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×