Innlent

Kynnir tölvufíkn fyrir Íslendingum

Bjarki Ármannsson skrifar
Ungur maður í Kína í notar tölvu. Þar í landi telja yfirvöld að milljónir séu háðir tölvunotkun.
Ungur maður í Kína í notar tölvu. Þar í landi telja yfirvöld að milljónir séu háðir tölvunotkun. NordicPhotos/AFP
Ný vefsíða sem ber heitið tölvufíkn.is er komin í loftið, en á henni er hægt að fræðast um vandann sem felst í því að ánetjast tölvunoktkun. Maðurinn á bak við síðuna er Þorsteinn Kristjáns Jóhannsson kennari, en hann glímdi sjálfur við tölvufíkn fyrir nokkrum árum.

„Án þess að vita það, var ég alveg húrrandi tölvufíkill,“ segir Þorsteinn. „Ég var rosalega mikið í tölvunni og það var allt annað á hakanum. Ég eignaðist ekki fjölskyldu, ég hunsaði eigin fjölskyldu, ég hunsaði eigin heilsu og klúðraði skólanum. Síðan er það ekki fyrr en ég er orðinn 33 eða 34 ára gamall sem ég sný þessu við, hætti að setja tölvuna í fyrsta sæti og átta mig á því að ég er búinn að sólunda stórum hluta af lífi mínu í að leika mér.“ 

Þorsteinn segist enn grípa reglulega í tölvuleiki en þá aðeins þegar hann hefur lokið öðrum skyldum sínum. 

„Þetta er eins og með matarfíkn, maður hættir ekkert að borða,“ segir hann. „Maður verður bara að læra að borða og að hafa stjórn á fíkninni.“

Á nýja vefnum má finna ýmsar upplýsingar um vandann, meðal annars að 13,7 prósent fullorðna einstaklinga segjast eiga erfitt með að vera án netsins í nokkra daga. Þorsteinn segir að Íslendingar geri sér ef til vill ekki nógu vel grein fyrir því hversu stórt vandamál tölvufíkn sé hér á landi.

„Ég á til dæmis fullt af tölvufíklavinum,“ segir hann. „Og ég er bara eitthvað skrýtinn fyrir að tala um tölvufíkn, þeir eru ekkert fíklar. Þetta er bara eins og alkar, þegar einn drykkjufélaginn fer í meðferð og hinir vilja ekki horfast í augu við það.

Enn sem komið er umræðan mjög ung hérna og ég held að fólk átti sig bara ekkert á því að þetta er vandamál sem fer vaxandi.“










Fleiri fréttir

Sjá meira


×