Innlent

Horfa þarf öld fram í tímann

Jón Júlíus Karlsson skrifar
„Vinstri grænir hafa haft gríðarleg áhrif á stjórnmálaumræðuna á Íslandi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna á flokkráðsfundi í dag. Hún segir að hugsa þurfi stóru málin lengur en til eins kjörtímabils - horfa þurfi heila öld fram í tímann.

Flokkráðsfundur Vinstri grænna fór fram í Fjölbrautaskólanum við Ármúla í dag og mætti þar allt helsta áhrifafólk flokksins. Helsta viðfangsefni fundarins voru nýliðnar sveitastjórnarkosningar og framtíðarstefnumótun flokksins. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fór um víðan völl í ræðu sinni. Að hennar mati er tvö viðfangsefni sem munu skipa stóran sess á sviði stjórnmálanna á næstu árum.

„Stærstu viðfangsefnin hér heima og erlendis á næstu árum og áratugum verða vaxandi ójöfnuður í heiminum og loftslagsbreytingar. Við í Vinstri grænum munum horfa á það hvernig við getum farið yfir okkar stefnu - okkar vinnu, þannig að við getum unnið að auknum jöfnuði og gegn loftslagsbreytingum,“ segir Katrín.

Rutt brautina í mörgum málum

Katrín sagði jafnframt í ræðu sinni að Vinstri grænir hafi haft gríðarleg áhrif á stjórnmálaumræðuna á Íslandi. Flokkinum hafi tekist að færa umræðuna til. Katrín nefndi í því samhengi t.a.m. þau auknu umræðu sem orðið hefur í umhverfis- og jafnréttismálum.

„Þegar við horfum aftur í tímann þá höfum við rutt brautina í mörgum málum. Árangur er ekki bara mældur í fylgi heldur einnig í því hvernig maður hefur getað breytt umræðunni. Ég tel að í ýmsum málaflokkum höfum við í VG haft mikil áhrif á umræðuna.“

Horfa öld fram í tímann

Katrín segir að flokkráðsfundurinn í dag sé ákveðin naflaskoðun á stefnu og starfi flokksins. Hugsa þurfi stóru viðfangsefni stjórnmálanna til mun lengri tíma en nú er gert.

„Einn vandi íslenskra stjórnmála er að við erum alltaf að ræða málin innan kjörtímabila. Við ætlum að leyfa okkur að horfa til næstu aldar og reyna að spá í spilin hvað varðar samfélagsbreytingar - hvernig heimurinn okkar á eftir að líta út. Einnig að sjá hvaða erindi Vinstri grænir eiga í þá framtíð. Ég veit að það erindi er brýnt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×