Innlent

Segir Siggu hafa gengið beint í gildru listamannsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Elliði Vignisson og límmiðinn.
Elliði Vignisson og límmiðinn. Vísir/Pjetur
„Mikið er þetta vel heppnaður gjörningur hjá listamanninum sem setti þennan límmiða í bílinn. Með þessu nær hann að kristalla strauma samfélagsins innan forms naumhyggjunnar,“ ritar Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, á Fésbókarsíðu sína.

Um er að ræða viðbrögð bæjarstjórans við frétt Vísis frá því í gær um límmiða í afturrúðu bíls við bryggjuna í Heimaey. „Lækkum skatta Skjóttu listamann,“ eru skilaboðin á límmiðanum sem vakti athygli listamannsins Siggu Jónsdóttur í Eyjum í gær.

„„Mig grunar að þetta tengist kosningunum en ég veit það ekki,“ sagði Sigga í samtali við Vísi í gær. Hún taldi límmiðann tengjast umræðunni um listamannalaun.

„Hún er svolítið á villigötum. Forgangsröðunin hjá fólki er misjöfn og kannski er forgangsröðunin úti í Eyjum önnur. En mér finnst þetta svolítið langt gengið,“ segir Sigga. Benti hún á að greinilega hefði verið töluverð fyrirhöfn að koma miðanum fyrir.

Elliði er sáttur við „gjörninginn hjá listamanninum“ sem setti upp límmiðann sem sé í anda naumhyggjunnar.

„Í takt við þá stefnu beitir hann einsleitum einingum eins og ódýru blaði og einföldu letri. Umgjörðin er svo bíll á atvinnusvæði. Honum tekst með þessu að sniðganga tilfinningalega túlkun og sjónrænar blekkingar en leggja þess í stað áherslu á samfélagsleg átök.“

Sigga birti myndina á Instagram í gær og bætti við merkinu #xD.

„Sigga Jónsdóttir gengur síðan beint í gildru listamannsins og "hastaggar" þetta með vísan í XD,“ skrifar Elliði. Um algert meistaraverk sé að ræða og hljóti eigandinn að verða tilnefndur til listamannalauna.

„Þar með nær verkið einnig aukinni hringvísunardýpt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×