Innlent

Björguðu fyrsta ferðamanni sumarsins úr ógöngum

Hrund Þórsdóttir skrifar
Gististaðir á hálendinu eru nú opnaðir einn af öðrum og þar eins og annars staðar verður glögglega vart við gríðarlega fjölgun ferðamanna. Í Landmannahelli er fullbókað út árið og inn á það næsta.

Útsendarar fréttastofu voru meðal fyrstu manna til að keyra Dómadalsleið þetta sumarið og af henni þarf aðeins að taka örlítinn krók og aka yfir Rauðufossakvísl til að komast í Landmannahelli. Þegar fréttamann og tökumann Stöðvar 2 bar að garði voru skálaverðir að klára að tengja vatn og gera allt tilbúið á fyrsta starfsdegi sumarsins. Það var því nokkuð ljóst að fljótlega myndi færast mikið líf í tuskurnar.

„Við erum með gistingu fyrir hundrað manns í skálum auk tjaldsvæðis og gerðis fyrir hesta. Svo bjóðum við upp á veiði í 15 vötnum hér í kring,“ segir Fríða Björg Þorbjörnsdóttir, skálavörður í Landmannahelli.

Hvernig hafa bókanir gengið hjá ykkur?

„Það er löngu orðið fullbókað fyrir þetta sumar og langir biðlistar fyrir júlí og ágúst. Svo er löngu byrjað að bóka fyrir árið 2015,“ segir Tinna Kristjánsdóttir, yfirlandvörður í Landmannahelli.

Þær Tinna og Fríða sjá um starfsemina á svæðinu í sumar og meðal verkefna þeirra er að draga bíla upp úr ám þegar þeir festast. Eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði reyndi fljótt á það því nánast um leið og viðtali við þær var lokið var hringt vegna fyrstu gesta sumarsins, sem höfðu fest sig í nálægri á. Bílstjórinn neyddist til að vaða ískalt fjallavatnið illa búinn til að koma taug fyrir en allt fór vel að lokum með aðstoð landvarðanna. Maðurinn var nokkuð kaldur eftir atvikið en komst fljótt í upphitaðan skála og þar með var ferðasumarið í Landmannahelli hafið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×