Innlent

Svæsin ummæli sett á Facebook í nafni sonar Sóleyjar

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Sóley Tómasdóttir lítur málið alvarlegum augum.
Sóley Tómasdóttir lítur málið alvarlegum augum. Vísir/Daníel
„Ég sá að það var einstaklingur sem kallaði sig Tómas Sóleyjarson sem var með mjög ósmekklegar athugasemdir sem allar byggðu á andfeminisma,“ segir Sóley Tómasdóttir, nýkjörinn forseti borgarstjórnar, sem lenti í því nú á dögunum að facebook prófíll undir nafni sonar hennar vakti athygli fyrir einstaklega ljót ummæli. „Þetta er viðsnúningur á nafninu mínu. Tilvísun í mig og son minn,“ segir Sóley en sonur hennar er sá eini sem ber þetta nafn á landinu. „Þetta er einkar ósmekkleg tenging.“

Sóley var látin vita af síðunni í gær, hún tilkynnti hana í kjölfarið ásamt fleirum sem hafði það í för með sér að hún var tekin niður. Þá hafði síðan verið uppi í nokkra daga.

„Þetta voru með svæsnari athugasemdum,“ segir Sóley og getur Vísir fallist á það. Því er ekki tilefni til þess að hafa þær eftir hér. Sóley lítur málið alvarlegum augum. „Já, þetta er grafalvarlegt mál. Það er ótrúlegt hversu lágt fólk er tilbúið að leggjast.“

Hún telur sig ekki hafa forsendur til þess að fara með málið lengra að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×