Innlent

Brotist inn í bát Landsbjargar: „Sorglegt að sjá“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hilmar Snorrason ætlar ekki að beita sér fyrir því að drengjunum verði refsað en þetta er ámælisverð hegðun.
Hilmar Snorrason ætlar ekki að beita sér fyrir því að drengjunum verði refsað en þetta er ámælisverð hegðun.
„Það er sorglegt að sjá að það er ekki borin meiri virðing fyrir björgunarbúnaði skipa en sem þessu nemur,“ segir Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnarskóla sjómanna, en nokkrir ungir drengir brutust inn í skólaskipið Sæbjörgu síðastliðna Helgi.

„Þeir fóru um borð og voru að fikta í búnaði, fóru upp í björgunarbát hjá okkur, voru að hamast hér og hentu hlutum í sjóinn.“ Skólaskipið Sæbjörg liggur fyrir neðan Hörpuna á Vesturbakka Reykjavíkurhafnar og er í eigu Slysavarnarskóla sjómanna sem rekinn er af Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.

„Við höfum verið að hirða bjarghringina okkar hérna upp úr höfninni.“

Hilmar segir skólann ekki hafa í huga grípa til neinna aðgerða gegn drengjunum, hann vilji fyrst og fremst láta aðstandendur vita hvað hafi gerst. „Við viljum bara láta vita að það hafi sést til þeirra. Hugsun mín er bara sú að þeir viti upp á sig skömmina og passi sig á því að þetta gerist ekki aftur.“

Unglingarnir í hættu við klifrið

Engar skemmdir urðu á skipinu en Hilmar hefur frekar áhyggjur af þeirri hættu sem drengirnir voru í. „Unglingar eiga ekki að vera að príla í möstrum á skipum. Þeir fóru til dæmis upp á skorstein skipsins og hann er í 15 metra hæð.“ Það er því ljóst að mesta mildi er að drengirnir skyldu ekki slasast. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem að einhver brýst inn í skip skólans. „Það er ekki erfitt að komast upp í bátinn, þetta er bara eins og hvert annað skip hér við bryggju,“ útskýrir Hilmar. „Þess vegna settum við upp myndavélar. Við erum alltaf að lenda í þessu. En þetta er í fyrsta sinn sem að við höfum náð myndum af liðinu vera að koma um borð.“ Hilmar ítrekar alvarleika verksins þrátt fyrir að ekki sé erfitt að brjóta sér leið inn í skipið. „Þetta eru auðvitað lokaðir staðir. Þetta er nú skóli og manni finnst alltaf sárt að sjá að það séu til menn sem taka eigur annarra og grýta í sjóinn.“

„Að fara og eiga við björgunarbúnað skipa er nokkuð sem á ekki að gerast,“ segir Hilmar og leggur áherslu á orð sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×